Án athugasemda

Ég var númer 23. Þrír á undan. Sat í bílnum og hlustaði Litlu fluguna á Rás 1. Þar voru leikin harmonikkulög og söngvari söng „Anna mín með ljósa lokka, líf og fjör og yndisþokka.“ Hugurinn hrökk til baka. Lagið var á toppnum eftir 1950.

Í fyrsta skipti sem ég fór með bíl í skoðun var það niður í Borgartúni á planinu fyrir fram 7b. Mig minnir að Magnús Wium hafi skoðað bílinn. Menn beittu kúbeini til að leita að sliti í hjólalegum og stýrisbúnaði. Ósjaldan var fékk maður rauðan miða. Endurskoðun.

Á þeim árum voru menn að festa stefnuljós utan á bílana sína. Nýjar reglur kváðu svo um. Seinna færðist skoðunin upp á Bíldshöfða. Þar var aðstaðan stærri. Eftirlitsmennirnir tjökkuðu bílana upp undir berum himni. Þeir voru yfirleitt svo þungbúnir á svipinn að maður fékk á tilfinninguna að bíllinn væri gjörónýtur. Eða því sem næst.

Í morgun fór ég í Frumherja. Þeir eru þar sem kartöflugarðarr voru í gamla daga og ein gatan hét Eggjavegur. Þar bjuggu menn í kassafjalakofum og framleiddu egg. Þegar inn á skoðunargólfið var komið spurði ég eftirlitsmannin hvort ekki lægi vel á honum. „Hvað heldur þú,“ sagði hann, „þýðir nokkuð annað?“ „Þrátt fyrir stýrivextina?“ spurði ég. Þá sagði hann „Ha?“ og bætti svo við: „Farðu og fáðu þér kaffi.“

Sem ég gerði. Fimmtán mínútum síðar hóaði hann í mig. Lét mig kvitta á blað: „Án athugasemda.“ Elsku bíllinn, hugsaði ég, hann verður 10 ára í haust.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.