Guðfríður Lilja – allt upp á borð

Hún leiðir lista VG í Kraganum. Hefur þótt flottasta ljósið og líklegust til að safna atkvæðum. Málflutningur hennar hefur verið athyglisverður og meiningar hennar ákveðnar. Verst hef ég átt með að hlusta á hana grátklökka harma grjótmela og eyðisanda sem hurfu undir vatn við virkjanaframkvæmdir.

En hún hefur verið ákafur kallari kröfunnar um „allt upp á borð”. Auðvitað eru allir sammála þeirri kröfu þótt reyndu fólki sýnist að það muni aldrei verða nema orðin tóm. Góð til að hrópa í aðdraganda kosninga.

Nú hefur Guðfríður verið valinn í fyrsta sæti á framboðslista. Um leið hefur hún misst það frelsi sem hún hafði til að tjá hug sinn um hin ýmsu mál. Nú verður hún að tala með hagsmuni flokksins síns í huga. Liðsheildarinnar þar sem fáir móta orðalag sem oftast endar með bæði og.

Þessa dagana snýst svo til öll umræðan um peningastyrki til stjórnmálaflokkanna. Daglega bætist við einn og einn þrumukjaftur sem þykist vammlaus geta höggvið mann og annan í þeirri umræðu. Ekki komu styrkjamálin mér á óvart og gott að þau komu upp á yfirborðið, en þau eru ekki aðalmál þessara daga.

Ég undra mig á því hvers vegna það ríkir þögn um þau mál sem mestu skipta okkur sauðsvart alþýðufólk. Málin sem koma til með að ráða úrslitum um hvort við komumst af eða ekki eftir kosningar. Til dæmis, hvað er vandi þjóðarinnar í rauninni stór?

Hvernig ætlar ný eða endurnýjuð ríkisstjórn að leysa þann vanda? Hvað verður mikið af vandanum lagt á þá sem minnsta getu hafa, eldri borgara, öryrkja og einstæðar mæður? Þetta brennur á. Varðar afkomu okkar. En það ríkir þögn og hún er óheiðarleg.

Guðfríður skrifaði pistil í mars sem ber nafnið Hálf sagan sögð. Krafa hennar er klár og hún spyr: „Hagur hverra er varinn með þögn um þessi efni – hagur almennings?“

Þetta kom upp í hugann í morgun þegar ég skoðaði heilsíðuauglýsingu VG með mynd af öllum frambjóðendum. Guðfríður Lilja leiðir listann í Kraganum. Þar bý ég.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.