Er ríkisstjórnin að blekkja mig?

Nú er harla skammur tími til kosninga. Tólf dagar. Aðeins. Ekki er auðvelt fyrir fákænan að ákveða hverja hann á að kjósa. Nýliðarnir og þeir sem reka áróður fyrir þá eru ekki allir þeirrar gerðar að þeir fylki fólki að baki þeim.

Í morgun horfði ég á myndband sem Borgaraflokkurinn hefur sett á netið. Allir sem þar tala segja nákvæmlega það sama og langflestir íslenskir alþingismenn sögðu þegar þeir buðu sig fram í fyrsta sinn. Svo breytti flokksræðið tungutaki þeirra. Það er engin ástæða til að áætla að hér sé eitthvað annað á ferð.

Við vitum hverju Samfylking og VG segjast standa fyrir. En við höfum enga sérstaka ástæðu til að ætla að verk þeirra eftir kosningar muni fylgja þeim orðum. Ekki fremur en orð stjórnmálamanna hafa gert hingað til. Fyrir kosningar. Saga svikinna kosningaloforða er stór hluti stjórnmálasögunnar.

Að mér læðist sá grunur að þögn ríkisstjórnarflokkanna um stærð vandans sem þjóðin þarf að takast á við viti ekki á gott. Vísvitandi þegi þeir og það sé hluti af blekkingum. Þá ríkir einnig þögn hjá ríkisstjórnarflokkunum um það hvernig þeir áætli að leysa þennan vanda eftir kosningar, vanda sem þeir telja svo nauðsynlegt að þegja yfir fyrir kosningar.

Þögnin um þessi atriði bendir til að þeir vilji fela staðreyndirnar sem og áætlanir sínar svo þeir geti áfram þjónað með geðþóttanum. Og maður spyr: Var ekki talað um að nú skyldi „allt upp á borðið? Hreinskilin og heiðarleg stjórnmál væri leiðarljós á nýjum tímum? Eða misheyrðist mér?

Ekki kýs ég einu sinni enn ríkisstjórn sem blekkir mig.

Eitt andsvar við „Er ríkisstjórnin að blekkja mig?“

  1. Það er enginn flokkur að bjóða fram sem Borgaraflokkurinn. Það að þú vitir ekki nafnið á flokknum sem þú ert að gagnrýna fram í tímann, bendir til þess að þú hafir ekki kynnt þér stefnu hans eða frambjóðendur að neinu ráði.

    Ég hvet þig til að kynna þér flokkinn, frambjóðendur og stefnu hans á xo.is.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.