Plurimarum palmarum homo

Við mættum í Árbæjarkirkju klukkan liðlega tíu í gærmorgun. Hún var þéttsetin. Fermingarguðsþjónusta fór í hönd. Um fjörutíu börn voru mætt til að staðfesta ákvörðun sína um að gera Jesúm Krist að leiðtoga lífs síns. Börnin voru falleg, vel klædd og vel greidd.

Eitt barnabarna okkar var í hópnum. Stúlka. Það var ánægjulegt að taka þátt í athöfninni. Sitja í húsi sem tileinkað er Guði, hlýða á ritningarstaði lesna og sálma sungna. Loks voru börnin kölluð að grátunum og spurð um ákvörðun sína. Þá fóru þau hvert með sinn ritningarstað og loks krupu þau og prestarnir blessuðu þau.

Að þessum atriðum loknum var gengið til altaris. Fjölskyldur gengu fram hver með sínu barni. Við tókum við brauði og víni í minningu frelsarans Jesú, sem sagði við lærisveina sína á þessum örlagaþrungnu dögum: „Gerið þetta í minni minningu.“ Í huganum rifjaðist upp orð úr fornöld frá tíma Móselaga um sáttmálablóðið.

Jesús stofnaði síðan nýjan sáttmála eftir kvöldmáltíðina: „Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthelt.““ Fyrri sáttmálinn var um lög Móse, „Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesúm Krist.“ „Náð á náð ofan,.“ eins og það er orðað.

Við eigum hlutdeild í þessum sáttmála. Tökum þátt í ytri táknum hans af fúsleik, táknum um innri upplifun og reynslu, lotningu og þakklæti. „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“ Þannig söng fólkið á dögum Krists á fyrsta virkum degi í aðfararviku páskahátíðar. Og það veifaði pálmaviðargreinum.

Pálmatré hafa í um ómunatíð verið tákn um sigur og sigurgleði. Cisero kallaði þann sem hafði unnið marga sigra „plurimarum palmarum homo“ eða „maður margra pálma.“ Á Íslandi þekkjum við málsháttinn að „vera með pálmann í höndunum.“

Við fórum úr kirkjunni ánægð með athöfnina og mættum til góðrar veislu þar sem stórfjölskyldum fermingarbarnsins var boðið til fagnaðar. Og þótt fermingarbarn átti sig ekki á þeirri dýpt sem í samfélagi við frelsarann felst, þá hefur það eignast aðgang að griðastað sem gildir fyrir lífið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.