Dagar mikillar alvöru

Framundan eru heilagir dagar. Mismunandi er hvað fólk veit um trúarlegt innihald þeirra. Það er miður. Ég minnist spurningaþáttar sem Pétur Pétursson þulur hafði í útvarpi fyrir margt löngu. Þátturinn var sendur út um páska. Pétur spurði fólk hvort það vissi um þýðingu bænadagana, skírdags, föstudagsins langa og síðan páskadags. Flestir götuðu.

Nú fara þessir dagar í hönd. Ég er þakklátur ritningunum fyrir að hafa gert sér bústað í huga mínum. Þær hafa hjálpað mér og sefað oftar en ég kann tölu á. Oft ólgaði hugurinn og kunni sér engin ráð.

Í Davíðssálmum yrkir höfundurinn um hugarangur sitt: „Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér?“ Margir eiga slíka lífsreynslu.

Reikna má með því að þeir sem upplifa hugarangur og ólgu eigi auðveldara með að setja sig inn í hugsun textans en þeir sem það ekki upplifa. Manngerðir eru margvíslegar. Lausnir á vanda þurfa því að vera margvíslegar. Höfundur sálmsins fann lausn fyrir sig og yrkir sálm.

Hann hefur sálminn: „Eins og hindin þráir streymandi vatn, þráir sál mín þig, ó Guð.“ Og bætir við: „Sál mína þyrstir eftir Guði..,“ Þegar Jesús frá Nasaret gekk um meðal almennings sagði hann: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, […] og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“

Það fara háheilagir dagar í hönd. Dagar mikillar alvöru. Hvert okkar lifi þá með þeim skilningi sem hverju og einu er gefið.

Gleðilega páska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.