Útlitið versnaði um helgina

Í fyrsta lagi urðu að engu vonir um að Framsóknarflokkurinn ætlaði að blása nýjum vindum í stjórnmálin. Þegar stjórnmálaflokkar ákveða að hafa ekki prófkjör þá hefur mér alltaf sýnst að á bak við þær ákvarðanir séu myrkraöflin. Þeir sem telja sig eiga flokkana. Þeir krefjist þess að stillt sé upp á listana svo þeir ráði mannvalinu. Það er böl.

Annað atriðið kemur frá Samfylkingunni. Framkoma Jóns Baldvins á fundi hennar er með endemum. Vonandi var þetta leikverk hans aðeins æðiskast athyglissýkinnar og rennur af honum á þrem dögum. Það lýsir ekki ábyrgð að valda usla þegar þjóðina vantar hjálp til að komast af. Samfylkingin þarf að vanda sig á þessum dögum og gera Jóhönnu kleift að standa fast í lappirnar.

Umræðan um peningaþvætti og spurningar Gunnars Tómassonar, hagfræðings í Washington, í bréfi til Egils Helgasonar, fá mann til að taka andköf. Það skyldi þá aldrei vera að þagnir, tafs og hik sjálfstæðismanna allar götur síðan 6. október stafi af tilhneigingu til að hindra að allur ósóminn komi upp á yfirborðið.

Svo eru raddir að pískra með það að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn séu að smíða brú. Hún á væntanlega á opna þeim leið til samstarfs eins og þess sem þeir hafa átt um langt árabil og færði þjóðina hingað. Í mínus tvöþúsund milljarða, hið minnsta.

En einhverjir munu nærast á ástandinu. Klíkur og bandalög munu taka höndum saman og kjósa brúarsmiðina því að:

„Ríkisstjórn sem sparar við þá efnaminni til að efla þá efnameiri getur alltaf teyst á stuðning þeirra efnameiri.“

Eitt andsvar við „Útlitið versnaði um helgina“

  1. Kynt er í Helvíti heitast bál
    hrösulir á það farnir
    Eins gott að hafi enga sál
    útrásarvíkingarnir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.