Haninn og prikið

Maður horfir álengdar. Hlustar álengdar. Og undrast aftur og aftur. Ástandið liggur yfir eins og dimmur skýjabakki. Venjulegt fólk áttar sig ekki til fulls á því hversu slæmt það mun verða. Framkoma og hegðun stjórnmálamanna er með ólíkindum. Fæstir haga sér eins og þjóðinni sé vandi á höndum. Gamall hani reigði sig á priki í gær.

Það var þægilegt að heyra Valgerði Sverrisdóttur draga sig í hlé frá stjórnmálum. Hún hefur setið nógu lengi. Það er samt, þrátt fyrir nýjan formann, eitthvað í gangi í Framsókn sem vekur tortryggni. Lúmskur grunur um mennina á bak við tjöldin. Þeir hafa lengi verið böl á þeim bæ.

Hvernig Samfylkingunni reiðir af er vafi eftir að Jón Baldvin þandi brjóstkassann í gær. Það eru ekki slíkir sem þjóðina vantar. Vissulega nýtur Jóhanna óskoraðs trausts. Og eins og fólk hefur þurft að horfa framhjá mörgum vansanum við vinnubrögð ríkisstjórna síðustu ára er tiltölulega auðvelt að einbeita sér að því jákvæða sem Jóhanna leggur til mála á þessum dögum.

Þá er ekki auðvelt að botna í sjálfstæðismönnum. Manni sýnist þeir hafi við valdamissinn sett sér það markmið helst að halda rykinu á lofti. Það er ekki stórmannlegt. Og alls ekki á tímum erfiðleika þjóðarinnar. Hvort Bjarni Benediktsson hafi persónuleika sem almenningur getur treyst á er ekki gefið. En það munu efnamenn gera.

Um Vinstri græna hef ég ekki mörg orð. Hef hlustað á þessi sömu andlit hamast í þingsölum um langt árabil. Í andstöðu við allt andstöðunnar vegna. Ungu konurnar munu varla breyta miklu þar um. Básúnurnar yfirgnæfa.

En nú þurfum við, ég og aðrir einfeldningar, að fara að sjá um hvað verður að kjósa í apríl. Festa, háttvísi, alvara og ábyrgð þurfa að einkenna orðræðuna næstu vikur. Tækifæristal og orðafroða að víkja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.