Á meðan þeir höfðu völdin komu þeir fram ábúðarmiklir með breiðan brjóstkassa og töluðu skáhallt niður á við til flestra. Í þinginu talaði hver og einn þeirra eins og sá sem valdið hafði. Valdið er flott föt og skapar manninn. Þingmanninn. Ráðherrann.
Nú hafa þeir verið afklæddir valdinu. Og það er eiginlega aumkunarvert að sjá þá og hlusta á tal þeirra. Ofsjónum virðast þeir sjá yfir traustinu sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur í skoðanakönnunum. Ræður margra þeirra virðast snúast um að rýra traust hennar. Með öllum mögulegum ráðum. Stórmennin reynast ekki, þegar allt kemur til alls, svo stór þegar valdsins ekki nýtur.
Nýtt fólk klæðist nú valdinu. Vonandi er nægilega mikil alvara í viðfangsefnum þess og ábyrgðartilfinningu að það sleppi því að þenja brjóstkassana og tala niður til annarra. Lýðurinn er nefnilega, þessa dagana, að mynda sér skoðun á stjórnmálamönnum, hverja hann telji verðuga atkvæðis síns. Hógværð og lítillæti hefur vægi í því samhengi.