Góður kostur í rústunum

Páll Skúlason var góður í viðtalinu við Evu Maríu. Hann sagði þar eitt og annað athyglisvert. Meðal annars um stjórnsýslu og stjórnmálamenn sem brugðust skyldu sinni við eftirlit með viðskiptaheiminum sem í skjólinu kollsteypti efnahag þjóðarinnar.

Tillaga Páls um nýja samvinnuhreyfingu er ekki galin. Sú sáluga áorkaði mörgu góðu á fyrri hluta síðustu aldar. Eins og til hennar var stofnað. En það fór fyrir henni eins og svo mörgum góðum hugsjónum að stjórnendur þeirra sáu sér leik á borði, misnotuðu aðstöðu sína og arðrændu hluthafa og félagsmenn. Sagan endurtekur sig.

Stjórnmálaleiðtogar ættu að hlusta á orð heimspekinga og siðfræðinga. Gera tilraun til að brjóta upp þröngt hugsanamunstur sitt og setja heill þjóðar framar heill útvalinna hópa. Hætta að lifa því villuljósi að þeir viti allt best.

Almenningur vill að eitthvað gott vaxi upp úr rústunum sem rjúka. Eitthvað sem gilti um jöfnuð og réttlæti og allir fengu hlutdeild í. Lífið er ekki bara peningar. Þótt tíðarandinn hafi alið af sér þetta brjálæðislega viðhorf til þeirra þá er það villa. Lífið er eiginlega allt annað en peningar. Þeir eru bara verkfæri eins og naglbítur er verkfæri.

Ef hlustað væri nánar á menn eins og Pál Skúlason, heimspeki þeirra og siðfræði, þá væri lífið ekki eins storknað og raun ber vitni. Því væri það góður kostur fyrir þjóð ef ráðamenn hennar veldu sér hugsuði og mannvini á borð við Pál Skúlason sér til ráðgjafar á nýju ári. Raunverulega góður kostur.

Eitt andsvar við „Góður kostur í rústunum“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.