Í fjórðu atrennu tókst okkur loks að kaupa skápinn. Tilhlaupið hefur staðið í tvö heil ár. Ég segir aftur, tvö heil ár. Þetta er fataskápur í litla kofann okkar í sveitinni. Ásta hefur haft augastað á honum í tvö ár. „Þá myndi ég losna við þessa fjórtán snaga á öllum veggjum,“ sagði hún og brosti svo fallega.
En skápurinn var of dýr. Kostaði um 17.000 þá. Það var of mikið. Næst fór hún ein til að skoða skápinn og láta sig dreyma um að losa snagana af veggjunum. Þá var útsala. Verðið um 14.000. Hún kom heim, alveg í loftinu og útskýrði óðamála að nú væri að hrökkva eða stökkva. Ég varð að draga úr henni. Hinkrum í hálft ár.
Hálfa árinu seinna fór ég einn í IKEA. Þá var skápurinn kominn í 25.000 krónur. Mér svelgdist á. Og 25% til 50% hækkun á öllum vörum í IKEA boðuð. Ég fann deildarstjóra, fremur þægilega konu, og spurði hvort ég gæti ekki borgað skápinn og sótt hann seinna. „Nei, því miður, það er ekki hægt,“ svaraði konan. „En hvenær hækkar hann?“ spurði ég. „Það gæti eins orðið seinna í dag,“ sagði hún.
Það var svo í fyrradag sem Ásta sagði mér að það væri útsala í IKEA. Hvort við ættum ekki að líta á skápinn. Við fórum í gær. Gengum rösklega alla krókana sem viðskiptavinir eru krafðir um að ganga. Það var margt um manninn. Engir að flýta sér. Það er pirrandi. Svo loksins, rétt áður en kom að matsalnum, blasti skápurinn við okkur. Verðið 19.300.
Ég spurði ungan starfsmann hvort hann gæti séð í tölvunni hvað margir væru til. „Fjórir,“ sagði ungi maðurinn. „Komum og höldum fund,“ sagði ég við Ástu. Í framhaldi fórum við í matsalinn og fengum okkur sænskar. Hún fékk trönuberjasultu, ég rauðkál. Og svo ræddum við málið og afréðum að mæta snemma í morgun og kaupa skápinn. Það er jákvætt að halda fund yfir góðum mat.
Í morgun vorum við mætt skömmu fyrir klukkan ellefu. Keyptum skápinn. Stækkuðum bílinn minn og gátum með herkjum komið skápnum í hann. Tveim pakkningum, gríðarlega þungum. Ókum upp í Borgarfjörð og bárum pakkningarnar inn í kofann. Heltum á kaffi og dýfðum þessu ágæta LU kexi í. Sigri hrósandi. Ókum svo til baka. Áætlum að setja skápinn saman næst þegar við gistum.
Á heimleiðinni velti ég því fyrir mér, af því að svo margir tala um skápa sem felustaði fyrir feimnismál, hvort ég væri á leiðinni í skápinn eða út úr honum. Er ekki talað um að fólk „komi út úr skápnum?“ En þá verður maður væntanlega að fara inn í hann fyrst. Er þetta ekki snúið? Ég pæli í því næstu daga.
Fyrst er náttúrlega að koma sér upp skáp. 🙂
Til hamingju með skápinn.