Ekki ferð til fjár

Búandi hér hálfa leið austur á Hellisheiði, eða nánar tiltekið, upp undir Rjúpnahæð þar sem Salahverfi heitir, ákvað ég að aka niður í miðbæ Reykjavíkur til að kaupa hljómdisk hjá útgefanda. Var ferð mín byggð á þeirri reynslu að ýmis bókaforlög hafa selt mér bækur sínar á miklu hagstæðara verði en bókabúðir hafa boðið. Þetta var í morgun.

Ferðinni var heitið í þessa litlu sætu og rómuðu búð, Tólf tóna, sem hefur aðsetur á Skólavörðustíg. Þetta var mitt eina erindi í bæinn. Ég gaf mig fram við kaupmanninn sem væntanlega er einnig forstjóri og útgefandi og spurði um verð á tilteknum hljómdiski. Verðið var kr. 2.800.- . Hvort hægt væri að kría út afslátt,- og þá með skírteini eldri borgara í huga,- bauð forstjórinn 10% afslátt.

Þá var verð disksins komið í kr. 2.570.-. Ég hikaði við. Þetta var dýr diskur. Forstjórinn bauð þá upp á sérblandað expressókaffi úr automat maskínu. Hvað ég þáði. Kaffið var mjög gott. Svo fór ég heim á leið með diskinn en ósáttur í hjarta mínu. Fannst ég eyða of miklu.

Á heimleið kom ég við í Bónus á Smáratorgi. Vantaði dulítið af þessu og dulítið af hinu í matinn. Fékk mér gula kerru og brunaði inn búðina í kjölfar stórmyndarlegra kvenna á allskyns aldri. Fljótlega varð fyrir mér rekki hlaðinn hljómdiskum. Þar á meðal þessum sem ég hafði keypt tuttugu mínútum áður. Ég hallaði mér að rekkanum og las á verðmiðann: Þar stóð: Kr. 2.299.- Verðmunur án afsláttarins, fimm hundruð krónur.

Og ég sem gerði mér verð til Reykjavíkur til að spara.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.