Götukona les ekki Moggann

Götukonan hniprar sig saman í desemberrökkrinu. Hún vefur úlpunni fast að sér og brettir kragann á henni upp. Hún er örlítið hokin og beitir annarri öxlinni fyrir sig þegar hún gengur. Líkt og aðrir gera í stormi. Hún horfir ekki framan í fólkið sem hún mætir. Ekki heldur í búðagluggana. Hún horfir ofan í gangstéttina og inn í sjálfa sig

Þegar nær dregur jólum berst hún við myndina af dóttur sinni sem aðrir fóstra. En myndin er þrálát. Ásækin þegar nær dregur jólum. Aftur og aftur tekur hún yfir svið hugans. Barnsandlit. Tifandi varir. Augu sem treysta. Augu sem vænta móður. Kyrr augu sem segja: Mamma. Mamma mín.

Nístandi sársauki sker sig inn í samviskuna. Sjálfsásökun.. Sjálfsásökun. Hljóðlaus óp leita af vörum hennar. Hljóðlaus óp yfir vanmætti, vangetu, ótta, skelfingu. Skömm. Götukonan leitar afsíðis. Finnur myrkan krók. Hniprar sig saman við hliðina á sorptunnum. Finnur gamalt Morgunblað og leggur á jörðina. Hún sest á blaðið. Hallar bakinu upp að vegg og dregur hnén upp að höku.

Hún starir í myrkrið með hálfopin augun. Ef hún lokar þeim birtist myndin af dóttur hennar. Tifandi varir. Augu sem treysta. Augu sem vænta. Kyrr augu sem segja: Mamma. Mamma mín. Það er ægilega langt til næsta dags.

Ellefu hæðum ofar heldur stjórn vesalingaforsjárinnar piparköku- og kakófund í turni nýbyggingar. Það hringlar í keðjum og gulli.

Eitt andsvar við „Götukona les ekki Moggann“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.