Hjartahnoð á Mogganum

Mikið mundi ég sakna Moggans. Hef lesið hann í meira en sextíu ár. Í augum mínum hefur hann alla tíð verið kletturinn í blaðaheiminum. Ritstjórar hans og margir mætir blaðamenn í gegnum tíðina menn sem maður treysti. Ég hef ekki sömu tilfinningu fyrir þeim sem skrifa blaðið núna. Enda eigendahópurinn öðruvísi samansettur.

Um þessar mundir veit maður ekki hvaða fólki í opinberu starfi er hægt að treysta. Flestallir koma fram með tvær til þrjár tungur. Fárra ræður eru já já eða nei nei ræður. Margir óvissir þættir ofnir inn í hverja málsgrein. Við slíkar kringumstæður verða einfaldir lesendur gjarnan ringlaðir og hætta að treysta höfundunum.

Traust er mikilsvert hugtak. Orðabækur lýsa því að utan en síður kjarna þess. Kannski skilja ekki margir það til hlítar. Þótt maður þykist einn daginn hafa nokkur tök á kjarna þess, þá koma dagar sem erfitt er að skilgreina það. Í reynslu minni af trúmálum geri ég mikinn mun á því að trúa og því að treysta. En það er önnur saga.

Um þessar mundir eru svokallaðir landsfeður rúnir öllu trausti. Þeim mun ekki takast að ávinna sér nýtt jafnvel þótt þeir setji í lög að þeim skuli treyst. Nýir menn koma fram, láta mikinn og vilja taka við landsfeðrahlutverkinu. En er þeim fremur treystandi en þeim sem fyrir eru? Hefur ekki Samfylkingin skipt um tungumál með hlutdeild í valdinu?

Vonandi tekst mönnum að halda lífinu í Mogganum frá og með 1. desember. Og vonandi tekst pennum þess að skrifa þannig að auðvelt verði að treysta því og hlakka til að lesa það á morgnana. Megi aðstandendur þess, gamlir og nýir, finna tóninn..

Litlaus yrði tilveran ef Fréttablaðið yrði eina pappírsdagblaðið sem völ væri á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.