Messa, Silfur og Heinrich Böll

Messa. Við fórum í Hallgrímskirkju í morgun. Ellefu messu. Hjónin. Það var sæmileg kirkjusókn. Hörður Áskelsson benti mér á að Messias eftir Händel yrði flutt á nýársdag. Það var vingjarnlegt. Krakkar kveiktu á fyrsta aðventukerti. Baukar gengu til að safna fyrir Hjálparstarfi kirkjunnar. Ekki veitir af. Í lok prédikunar fór biskupinn með bæn og blessun. Meðal annars bað hann fyrir stjórnvöldum. Það er biblíulegt og gladdi mig: „Elskið óvini yðar.“

Silfur. Þegar heim kom fylgdumst við með Silfri Egils. Það fór fyrir mér eins og síðasta sunnudag. Ég varð miður mín. Það sem kemur fram á þessum vikum um svikamyllur og myrkraverk fjárfesta, meiri og minni, í skjóli stjórnmálamanna veldur einskonar sjóveiki í hausnum á mér. Og þegar menn núna sýna svona mikinn kraft til að draga ósómann fram í dagsljósið, spyr maður: Af hverju var það ekki gert fyrr af sama afli?

Heinrich Böll. Hún er skondin smásagan „Eitthvað verður gert“ eftir Heinrich Böll. Hún segir frá manni sem sótti um vinnu í verksmiðju og fékk hana. Eftir mikinn eril og ákafa í starfi um nokkurn tíma var hann fenginn til að bera krans úr gervirósum við útför verksmiðjueigandans Alfreds Wunsiedels sem látist hafði snögglega og óvænt. Við útförina fékk söguhetjan tilboð um vinnu sem atvinnusyrgjandi hjá útfararfyrirtæki. Honum kom það ekki í hug fyrr en löngu seinna að hann hafði aldrei vitað hvað framleitt var í verksmiðju Wunsiedels. ,,Það mun hafa verið sápa.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.