Lítum upp á þessum björtu dögum

Það getur vel verið að skyldleiki manna við strútfugla opinberi sig óþægilega þegar fólk, á sólríkum dögum, sleppir því að meðtaka gallsúra svartsýnissíbyljuna sem látin er dynja á þjóðinni dag eftir dag og viku eftir viku, í dagblöðum og ljósvakamiðlum sem og blogggáttum og flestum þeim stöðum öðrum þar sem orðið er frjálst.

Í morgun fór ég á vit sólarinnar og stansaði um stund þar sem rignir gulli og sólblóm ilma og morgunfrúr og stjúpur og sólboðar skarta þessari undursamlegu litafegurð sem verkar eins og himnesk tónlist í augum manns. Eða augnakonfekt. Blómin sem ég hitti í morgun eru raunverulegt augnakonfekt sem gleður sálina og hjartað og sinnið án viðbætts sykurs og E-efna.

Fyrst á vegi mínum varð þetta glæsilega gullregn:

Eftir klukkustund, unaðarstund, hljómaði gallsúr síbyljan í hádegisfréttunum um bensínverðið og gengishrunið, geðveikina í evrunni og kveinstafi bankanna og þeim öðrum sem telja sig eiga allar íslenskar krónur sem finnast hérlendis og erlendis.
Ég tók blómin með mér heim og skoða þau aftur og aftur. Það gerir mér gott.

2 svör við “Lítum upp á þessum björtu dögum”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.