Sólskríkjan hjá Borgarspítalanum

Þegar maður kemur út úr Borgarspítalanum á fyrstu hæð, þar sem vaktmennirnir eru í glerklefa, og gengur eins og leið liggur út gangstéttina vinstra megin við aðkeyrsluakreinina,
þá eru þar til hliðar við stéttina tveir steinar það stórir að þægilegt er að setjast á þá.

Ég gekk einmitt þarna í dag og sólin var eins og allir vita og bjart og elskulegt og ofurlítill vindblær. Þegar ég kom að steinunum þá sat þar ung kona á öðrum þeirra, snéri baki í spítalann og borðaði epli. Ég stansaði hjá henni og sagði: „Þú minnir mig á sólskríkjuna.“

Konan hætti við að bíta í eplið og leit á mig furðu lostin: „Hvað sólskríkju?“
„Hans Páls Ólafssonar,“ sagði ég glaður í bragði.
„Nei,“ sagði unga konan afsakandi og færði höndina með eplið frá munninum. Ég þuldi:

„Sólskríkjan mín situr enn á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini
honum Páli Ólafssyni.“

Nú brosti kvenmaðurinn. Ég fór aftur með vísuna og lagði áherslur á stuðla og rím. Spurði svo: „Lærðir´ðu hana?“
Hún reyndi. Vantaði eitt eða tvö orð. Ég hjálpaði henni með því að fara með vísuna einu sinni enn..

Svo hljóp ég út í bíl og ók heim. Maður verður svona skringilega kátur þegar vinur manns sem liggur á spítalanum er á góðum batavegi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.