Aumir verslunarmenn í Smáralind

Það er alltaf pirrandi þegar prentari verður bleklaus í miðju verki. Maður stendur sig að því að hafa trassað að kaupa hylki. Ekki við aðra að sakast. Huggunin ætti að felast í því hversu margar tröllslegar verslunarmiðstöðvar eru komnar í kvosina í dalnum í Kópavogi fyrir þá sem búa þar skammt frá. En það reyndist ekki svo.

Fór af stað, hæfilega fúll út í sjálfan mig, og geystist niður í Smáralind. Mundi eftir þrem verslunum sem höndla með blek í prentara. Skundaði rösklega og hóf leitina í Office One. Stúlka sem leit út fyrir að vera 13 til 15 ára var við kassann. Á bak við hana rekki með hylkjum. Canon IP5200R. „Við eigum þrjá liti, ekki gulan, því miður.“ Mig vantar fjóra.

Næst var Eymundsson: Gulur ekki heldur til. Endaði í BT. Mér virtist stúlkan sem þar var við kassann vera enn yngri en sú fyrsta. „Því miður. Ekki gulan. Því miður.“ Og nú sit ég hér heima með bleklausan prentara og tími ekki að aka til Reykjavíkur. Bensínið komið í 168.70 hjá Atlantsolíu.
Sé ekki betur en ég verði að hnoða í brauð til að stilla mig af.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.