Einn í heiminum

Í liðinni viku lét ég smyrja „Gamla rauð“. Gamli rauður er nýtt nafn á gamla bílinn minn. Subaro Forester ’99, ekinn 160.000. Einn eigandi. Ég finn fyrir vaxandi væntumþykju til hans í hvert sinn sem ég sest undir stýrið. Tengi það við kvíðann fyrir því að hafa ekki efni á að reka hann.

Það voru bílar á báðum gryfjunum á smurstöðinni. Fólksbíll á annarri og Lexus jeppi á hinni. Þeir voru að ljúka við jeppann og ég næstur. Lexus jeppi er afar stoltur bíll og það var eigandinn einnig. Hann hafði brugðið sér frá á meðan smurt var. Það þýddi að bíllinn þurfti að bíða eftir honum.

Svo þegar bílstjórinn eða eigandinn, þetta var ungur maður með barn á handleggnum, kom, byrjaði hann á því að spjalla við starfsmenn smurstöðvarinnar. Eftir alllangt samtal kom að því að greiða fyrir þjónustuna. Hann ræddi reikninginn. Kvittaði loks á kortakvittun. Mér var farið að leiðast.

Loks fór hann farþegamegin að bílnum og dundaði við að koma barninu fyrir í barnastól í aftursætinu. Kyssti barnið og dúllaði framan í það og brosti með tönnunum. Mér leiddist enn meir. Loks settist hann undir stýrið og tók til við að skoða þjónustubókina, setti pappíra inn í hana og kom henni fyrir í hurðarvasa. Nú var ég orðinn pirraður.

Maðurinn var greinilega einn í heiminum. Stoltur maður á stoltum jeppa, Lexusjeppa. Ég velti því fyrir mér hvort svona stoltur lúxusjeppi færi í sálina á eigendum sínum og þendi út í þeim stoltið innan um venjulega bíla og hversdagslegt fólk. Nú tók maðurinn að bakka út. Varlega. Þar stansaði hann fast upp við Gamla rauð, hagræddi sér í sætinu og spennti bílbeltið. Seig svo af stað, undurhægt.

Mér varð litið á númerið á bílnum. Þar var miði: Endurskoðun. Það var þá sem ég losnaði við pirringinn.

Eitt andsvar við „Einn í heiminum“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.