Gjörningar í Samhjálp I

Þannig hljómar fyrirsögn fréttar í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag. Sagt er frá því að daginn eftir muni galleríið Kling og Bang efna til gjörningahátíðar í gamla Samhjálparhúsinu á Hverfisgötu 42.

Þessi litla fregn rifjaði upp aðkomu Samhjálpar hvítasunnumanna að húsinu. Við Ásta höfðum tekið við rekstri Samhjálpar í maí 1977. Við lögðum aðaláherslu á að ná til utangarðsfólks. Til þess hafði Samhjálp verið stofnuð í upphafi og byggt á orðum Krists um miskunnsaman samverja.

Þegar við tókum við Samhjálp hvítasunnumanna var öll starfsemi stofnunarinnar í Hlaðgerðarkoti. Fljótlega kom í ljós, vegna mikillar aðsóknar, að nauðsynlegt væri fyrir stofnunina að hafa aðstöðu í Reykjavík. Margt kom til.

Í fyrsta lagi þyrftu þeir sem lokið höfðu meðferð í Hlaðgerðarkoti og náð árangri þar, að hafa aðgang að samastað í Reykjavík. Ástæðan var sú að þeir sem leituðu til trúar urðu fyrir aðkasti og áreiti frá fyrri félögum sem bjuggu í öðrum sambýlum fyrir óreglumenn í bata. Þetta atriði kallaði á þörf fyrir stoðbýli þar sem trúaðir gætu uppörvað hvern annan.

Í öðru lagi þyrfti að vera til kaffistofa þar sem svokallað „götufólk“ gæti komið og sótt sér yl og hvatningu til að gera eina tilraun enn til að sigrast á vanmætti sínum og nú með leitun til trúar á Jesúm Krist og kærleika hans, sem var þungamiðja starfs Samhjálpar hvítasunnumanna. Nauðsynlegt væri að sú aðstaða væri sem næst miðbæ borgarinnar þar sem „götufólkið“ varði mestum hluta tíma síns.

Í þriðja lagi væri hægt að fjölga rúmum í Hlaðgerðarkoti ef skrifstofa og umsjón starfsins viki þaðan. Við settum þessar óskir á bænalistann okkar og fórum á hnén.

Framhald.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.