Allt hvítt

Á góðum morgni vakna ég einni mínútu áður en útvarpið kveikir. Það er klukkan 6:40. Þannig var þetta í morgun. Og beinagrindin verkjalaus. Sótti blöðin niður í anddyri og settist yfir þau með kaffið sem Ásta bjó til. Fékk ekkert út úr blöðunum. Kannski tvær greinar. Önnur eftir gamla biskupinn.

Kveikti þvínæst á tölvunni. Las bloggarana sem eru í „favorit-inu“. Þar er nú súpan stundum „sérstök“. Skoðaði nýju heimasíðuna hans Brynjólfs = binni.is, hún er stórglæsileg. Ég ætla að biðja hann um að blása nýju útliti í mína síðu. Þetta smitar.

Á slæmum morgni vakna ég löngu áður en útvarpið kveikir. Þá fer beinagrindin framúr á undan mér. Og ég elti hana. Er að vona að bráðum linni sjálfstæði hennar. En læknirinn sagði að það tæki sex til tólf mánuði. Ég hef svo sem ekki haft á mér orð fyrir þolinmæði.

Sjálfstæð beinagrind

Í morgun var alhvít jörð, þrátt fyrir hugtakið „vor“ sem bæði heyrist í tali manna og sést í textum þeirra oftar og oftar um þessar mundir. Hvað sagði ekki Jón Múli í morgunútvarpinu um árið: „Nú er það svart maður, allt orðið hvítt.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.