Afleggjarinn og glíman við fordóma

Glími alltaf við þessa fordóma gagnvart skáldsögum íslenskra rithöfunda. Les þær helst ekki nema ef vinir láta falla orð um þær sem hitta mig. Og þá helst óbeinar athugasemdir. Sérlega finnst mér lærdómsríkt að heyra umsagnir Ástu um bækur. Þykist þekkja orðalag hennar svo vel að ég geti „lesið“ á milli línanna í tali hennar um bækur. En Ásta er mikill lestrarhestur.

Um helgina uppi í Borgarfirði lauk ég við Afleggjarann, eftir Auði A. Ólafsdóttur. Mér gekk ekkert sérlega vel að tengjast bókinni. Varð að knýja mig. Áður en varði tók hún svo að renna sjálfkrafa og halda mér við efnið. Bókin er margslunginn þrátt fyrir einfaldleika og titill hennar lúmskur. Fannst ég finna fyrir Eco öðru hverju.

Málið á bókinni er frábært. Umsnúningur á hlutverkum kynjanna kaldhæðnislegur á köflum. En sagan og málfarið búa yfir dásamlegum þokka. Enda fór það svo að ég gat ekki lagt hana frá mér þegar á leið söguna. Þannig fór einnig fyrir mér með Karitas og Óreiðu á striga. Þótt Óreiðan sé óþarflega margorð.

Þessar konur tvær, Auður A. Ólafsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir, eru frábærir rithöfundar.

Eitt andsvar við „Afleggjarinn og glíman við fordóma“

  1. Ég hef lengi háð sömu glímu gegn fordómunum. Án þess að skilja hvers vegna eða hvaðan þeir eru sprottnir. En inn á milli leynast sannkallaðir gullmolar. Það er bara svo erfitt að byrja á þeim!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.