Biblíuþýðingin og þrasið

Það fer ekki framhjá neinum á þessum dögum að menn bregðast á ýmsa vegu við nýju biblíuþýðingunni. Er það væntanlega fastur liður í hvert sinn sem ný þýðing hennar kemur fram. Margt af því sem neikvætt er sagt um biblíuþýðinguna virðist fremur af rótum stærilætis en ígrundun og hógværðar, sem ætti þó að vera aðal allrar umræðu um þessa háheilögu texta.

Í grein í Lesbók, laugardaginn 13. október, eftir Jón Sveinbjörnsson, fyrrverandi prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands segir: „Texti Biblíunnar er tjáning löngu liðinna manna um lífsgildi. […] […] Hins vegar virðist oft hafa verið hætta á ( við þýðingar) að ytra form textans tæki völdin og yrði að einskonar skurðgoði. Boðskapurinn virðist þó ætíð brjótast út í nýjum þýðingum og má í því tilefni nefna þýðingu Lúters.“

Í huga mínum, óbreytts leikmanns, leikur alltaf vafi á um þýðingar. Strax á fyrstu árunum með ritningunum, fyrir meira en fjörutíu árum, þegar ég, þyrstur í anda textanna, fann ekki fullnægju í íslenskum þýðingum og tók að sanka að mér erlendum, komst ég fljótt að því að fæstum þeirra bar alveg saman. Sem er auðvitað hið eðlilegasta mál.

Á bak við biblíuþýðingar hljóta alltaf að vera nefndir eða ráð sem skera úr um niðurstöður. Þessi ráð hafa verið uppi á mismunandi tímum og á mismunandi málsvæðum sem hljóta ævinlega að verka á endanlegt útlit textans. Þá og blasir það við að sjötíumannaþýðingar og fimmtíumannaþýðingar sem leituðust við að umorða frumtextana, hljóta alltaf að hafa endað með einhverskonar málamiðlunum.

Sama hlýtur að gilda um þá sem fyrst settu hugsanir og munnmæli um lífsgildin í orð. Orð sem við í dag köllum Guðsorð og voru skráð á hebresku og jafnvel sanskrít. Að fyrstu samningu þeirra hljóta að hafa komið fleiri en einn útvaldir viskunnar menn og þeir hafa nokkuð örugglega þurft að bera niðurstöður sínar undir einhverskonar yfirvald, en eins og lýðum er ljóst þá eru yfirvöld, á öllum tímum, samansett af mislitum og misvitrum mönnum.

Það gæti því verið ágæt aðferð að lesa fleiri en eina biblíuþýðingu samtímis og vænta þess að textar þeirra gerjist í huga manns og andi þeirra og boðskapur brjótist fram og skapi hugsun um lífsgildi sem komi flestum mönnum til góða og bæti líf þeirra og andlega sátt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.