Haustkvöld

Gunnbjörg kom frá Edinborg í gær. Hún fór þaðan í blíðskaparveðri eftir ánægjulega viku í heimsókn hjá vinum sínum frá háskólaárunum þar. Lenti á Íslandi í suðvestan stormi og beljandi rigningu í hviðum. Sagði í bílnum hjá mér: „Ég er svo sem komin heim.“ Svo ókum við eins og leið liggur inneftir, eins og sagt er á suðurnesjum.

Hún kom til okkar í mat um kvöldið. Við fengum hana til að segja okkur flest um upplifanir þar ytra. Það var gaman að heyra hvað vikan hafði verið góð og velheppnuð. Þetta ræddum við yfir grænmetissalati og tveim heilsteiktum kjúklingum, kartöflumús og sósu með trixi kenndu við Litlatré. Raunar var ekki talað mjög mikið yfir matnum því að við erum alin upp við að tala ekki með fullan munninn. Það varð lítill afgangur.

Skoti með öllu

Hún gaf okkur foreldrunum nokkra hluti frá Edinborg. Meðal annars þennan fullbúna Skota með sekkjapípu.

Svo settumst við í betri sæti og fengum sterkt kaffi og nammi úr fríhöfninni. Og ræddum ýmis mál. Mest þó um bækur og höfunda. Þá byrjaði algleymið. Það gerist gjarnan þegar þau mál eru rædd. Mæðgurnar rifjuðu upp hinar ýmsu bækur og minntust atburða í þeim. Sjálfur nefndi ég Kafka og Köstler, Myrkur um miðjan dag. Rifjaði upp þegar við Ásta komum í kaffistofuna sem tileinkuð er Kafka í Prag. Komum þar inn fyrir hádegi, full af aðdáun og lotningu, en hittum fyrir svo ruskulegt starfsfólk að lotningin fjaraði út á augnabliki.

Mustard Pommery

Ég hafði beðið Gunnbjörgu um að kaupa fyrir mig franskt Pommery sinnep sem mér hafði ekki tekist að finna hér heima. Þetta tókst henni og má ég til með að stilla krúsinni upp til myndatöku.

Svo komu þau til sögunnar, Lessing og Coetzee. Þær mæðgur rifjuðu upp söguþráðinn í Grasið syngur, – um morðið á Mary Turner á veröndinni framan við hús þeirra hjónanna og löggurnar og hvíta manninn sem ekki var hlustað á. Þær ákváðu að endurlesa bókina. Loks ræddum við nýju Biblíuna og andann í textunum og þá hófst samtal um geðfræði, sálfræði og sálgæslu og enn kom hrina og tíminn leið hratt og það var skemmtilegt og öllum leið vel.

Þetta var eitt af þessum góðu haustkvöldum sem gera hjartað í manni hamingjusamt og vinsemdin umlykur mann eins og ljós og ylur þótt úti geisi suðvestan vatnsveður, rok og rigning.

2 svör við “Haustkvöld”

  1. Gott að eiga hjá þér umræðu um biblíuþýðinguna.
    Frétti af þér á fundi íslenskufræðinga í Háskólanum.
    En kjúklingurinn er búinn, sorry. 🙁

  2. Skemmtilegt. Mér var ekkert boðið. Ég hefði nú getað sagt eitt og annað um nýju biblíuþýðinguna … og ekki hefði ég átt erfitt með kjúllann. 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.