Tveggja peysu veður og annarra manna harðsperrur

Við tókum þannig til orða strákarnir þegar við vorum enn ungir menn og störfin voru utandyra á þorra og góu, lýstum kuldanum sem tveggja peysu veðri og allir skildu hvað átt var við. Veðrið í Borgarfirðinum var þannig síðustu viku, og ekki bara þá heldur hefur það verið þannig allan maí að heita má og bændur ekki getað hleypt lambánum út á tún.

Veðrið á föstudaginn var þannig og laugardagurinn afleitur. Í áætlun var að klæða grindverkið nokkra metra og stinga niður stilkum af alaskavíði. Ásta varð bálill og sagðist ekki fórna sér í svona skítaveðri. Kom þó út í tveim peysum hálftíma síðar. Það hafði frosið um nóttina. Eftir hádegi reyndum við við stilkana en hættum. Um nóttina fraus aftur.

Sunnudagurinn kom svo eins og elskulegur ástvinur og umvafði okkur með sól og hlýju. Hitinn komst í 15 gráður í forsælu og allt angur vék úr huganum og við tókum að rifja upp dýrðardaga fyrri sumra og ég fór úr að ofan og togaði buxnaskálmarnar upp fyrir hné. Þá ákvað Ásta að fara fram að Kalmanstungu og kyssa systur sína til hamingju með daginn. Við vorum því tvö þarna á pallinum, ég og sólin. Mér líkar betur við sólina.

Fullreistur og stoltur

Einn af viðburðum dagsins var koma kranabíls á nærliggjandi svæði. Aldrei hef ég séð nokkurn mann með svo langan krana. Ég meina bíl. Hann var svo óhemjulega langur á honum þegar hann reisti hann og lét hann standa beint upp í loftið. Skoðið myndina og berið saman stærð mannsins sem stendur vinstra megin við bílinn.

En í dag er ég illa haldinn. Þjáður. Bæði af harðsperrum, hlaupasting og brjóstverkjum. Það heltók mig þegar ég las um hádegið pistil Birnu bloggvinkonu minnar. Vonandi lagast þetta eftir því sem líður á daginn.

2 svör við “Tveggja peysu veður og annarra manna harðsperrur”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.