Veðrabrigði – geðbrigði

Það má til sannsvegar færa að veðrið á okkar blessaða landi hafi mótandi áhrif á sálarlíf landsmanna. Og því upplifi margir lægðir og hæðir í huga sínum og sálarlífi. Sagt hefur verið að einn dagur á Íslandi sýni, þegar örlætið er mest, allar tegundir veðurs frá morgni til kvölds og stundum tvær eða þrjár umferðir.

Reikna má með að sumar manneskjur upplifi svipuð brigði í sálinni. Einn þekkti ég sem sagði að veðurlægðir færu alltaf í gegnum hann. Þá átti hann til að fara upp í rúm um miðjan dag og breiða upp fyrir haus.

Einn daginn snjóaði

Mamma mín átti það til á góðum degi að taka strætó inn að Elliðaám, fara úr skóm og sokkum og vaða um ána og hlægja og rifja upp atvik frá bernsku sinni austur í Fljótshlíð, „..þegar við systkinin..“ sagði hún og brá ævintýrablæ á umhverfið. Þetta var þegar borgin náði aðeins inn á Rauðarárstíg.

Ýmsar birtur í lofti

Sjálfur upplifði ég það í eina skiptið sem við Ásta fórum í sólarland, að ég bað Guð um rigningu og rok, þar sem sálin í mér var að verða að leðju. Guð hefur oft reynst mér vel og það gerði hann einnig þarna. Og þegar allir hinir fussuðu og sveiuðu yfir regni og roki, þá hló ég eins og þú veist.

Manneskjur framtíðarinnar

Ég hef tekið þrjár myndir út um gluggana hérna á sjöundu hæðinni þessa viku. Atvik í umhverfinu urðu til þess. Einn daginn snjóaði, annan daginn urðu dularfullar birtur í lofti og í morgun gengu þessar elskulegu manneskjur framtíðarinnar niður göngustíginn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.