Kjörtímabil hinna snauðu

Það hefur verið trú mín um langt árabil að gott kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins hafi að hluta til helgast af því að stjórnarandstöðuna hafi vantað nægilega traustvekjandi fólk í efstu sætin, því að þótt þar finnist pólitískar hetjur þá eru þær ekki í efstu sætunum. Því miður. Fyrir þessar kosningar hefur engin breyting orðið þar á.

Menn gera sér ljóst, og ekki síst þeir sem hlustað hafa á kosningavaðal í meira en fimmtíu ár, að stór hluti þeirrar orðræðu var og er hismi, gagnslaust orðskrúð sem engin leið er að taka mark á, því að eitt er að segja hvað gera þarf og annað að framkvæma það. Næstu ríkisstjórn, hver sem hún verður, er því mikill vandi á höndum, en allir hafa flokkarnir játað að breyting er nauðsynleg, að kominn er tími til að lagfæra gengi hinna snauðu.

Bloggvinkona mín ein tók þannig til orða: „Hagvöxtur sem skilar öðrum jeppa heim á hlað er einskis verður.“ Um þetta eru allir sammála nema kannski þeir sem eiga þrjá til fimm bíla og einbýlishús í mörgum löndum. En þeir eru ekki svo svakalega margir. Hinir fátæku og illa settu er miklu, miklu fleiri og þeim hefur farið fjölgandi. Það er rangsleitni. Nú er auðvitað brýnast að koma á móts við vandamál þeirra.

Næsta kjörtímabil þarf að verða kjörtímabil hinna snauðu. Hver sem völdin fær.
Sérhver kjósandi, í lýðræðisríki, situr ekki heima heldur kýs til starfans þá sem hann treystir best.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.