Aðalerindi erindi gærdagsins var að fara í banka og kaupa fáein sterlingspund. Ásta mín á afmæli í vikulok og vill snæða kvöldmat í Edinborg á afmælisdegi sínum. Það er dásamlegt að vera maki slíkrar rausnarkonu. Og þar sem ég hef yfirleitt of fátt fyrir stafni varð að samkomulagi að ég annaðist gjaldeyrisviðskiptin. Sem ég gerði af miklum fúsleik.
Í tiltölulega þægilegu skapi ákvað ég, mér til gamans, að skoða nú þessa „afar miklu og hörðu samkeppni bankanna“ sem bankastjórarnir státa af svo stoltir í fjölmiðlum. Klæddi mig upp í tilefni erindisins og setti á mig alpahúfuna góðu. Hóf rannsóknina í Spron í Smáralind en við Spron hef ég skipt í 25 ár.
Spurði ég stúlku í afgreiðslunni hvað ég þyrfti að greiða fyrir 100 sterlingspund, með öllu. Hún reiknaði, og reiknaði og nefndi tölu. Bað ég hana að slá töluna á strimil og gefa mér. Sem hún gerði fúslega. Næst lá leiðin í Glitni. Þar var ekki búið að opna. Fór þá upp á efri hæð. Þar er Landsbankinn og bað ég um sömu upplýsingar. Þær voru veittar af sömu lipurð og þar sem að um sjáanlegan verðmun var að ræða ákvað ég að kaupa þar.
Gjaldkerinn, ung kona, afskaplega ástúðleg og lipur, fór á „bakvið“ og sótti seðlana og lét síðan starfsfélaga sinn endurtelja. Eftir óskum mínum skipti hún peningunum í tvo hluta og eftir debetkort og kvittun setti hún klemmur á báða hlutana og síðan allt saman í umslag. Og brosti til mín. Við horfðumst í augu og ég brosti á móti og mig langaði ekkert sérstaklega að flýta mér.
Á leiðinni út og kominn niður á neðri hæðina ákvað ég að koma við í Glitni, sem nú var rétt liðlega búinn að opna, og tók númer og þegar að mér kom bar ég erindi mitt upp við gjaldkerann í miðjunni, konu, sem tók mér vel. Hún reyndi að kalla gengi dagsins fram á skjáinn hjá sér og sagði augnablik. Og svona liðu fjölmörg augnablik og ekki skilaði gengið sér og konan tók að afsaka biðina og þegar augnablikin voru orðin að tíu mínútum, gafst ég upp.
Á meðan ég beið þarna upp við afgreiðsluborðið kallaði annar gjaldkeri, sem einnig er kona, upp númer næsta viðskiptavinar: SEX. Eftir svona svo sem fjórar sekúndur til viðbótar kallaði hún aftur: SEX. Þá skaust til hennar lítill og snaggaralegur náungi sem sagði stundar hátt. Hvar viltu fá það?
Það var svo í morgun að Landsbankinn í Smáralind hringdi í mig heim og sagði að það hefðu orðið mistök. Ég hefði fengið evrur í stað sterlingspunda. Ég gáði í umslagið og þetta reyndist rétt og eftir afsakanir og mikla kurteisi af bankans hálfu sagðist ég skyldi koma við og leiðrétta málið. Sem ég nú hef lokið við. Fékk sjö krónu reiknitölvu í sárabætur.
En af hinni miklu samkeppni bankanna er það að frétta að verðmunurinn á áðurnefndu dæmi nam 0.37 %. Sem gerir kr. 3.70 á þúsund kall. Og ég bara segi það, með aðdáun og lotningu í huga, þetta er sko samkeppni í lagi.
Þú hefðir ekki fengið marga bensíndroda fyrir mismuninn á þessum viðskiptum til að fara milli banka. En góða ferð og afmæliskveðja til Ástu.