Kæst skata – tákn vellíðunar og vináttu

Það má eiginlega segja að jólin okkar hafi byrjað á Þorláksmessudag. Þá mættu hér fimmtán fjölskyldumeðlimir skömmu eftir hádegi til að borða skötu. Áður en yfir lauk var hver ögn horfin. Fimm kíló af skötu, tvö af saltfiski, sex kíló kartöflur, tólg og rúgbrauð með smjöri. Það ríkti ákaflega innileg stemning og ástríkið flæddi milli þátttakenda. Sannaðist þar, eitt skipti enn, að kæst skata er mikið vellíðunarlyf.

Kyrralífsmynd: Skatan og kötturinn eftir Jean Simeon Chardin

Til gamans hef ég sett nokkrar myndir á síðuna og geta áhugasamir smellt á MYNDIR, hér fyrir ofan, síðan á Fjölskyldumál og Skötuveisla til að skoða albúmið. Það hefur nú staðið til, lengi, að setja upp eitthvað af myndum úr gömlum og nýjum albúmum, til upprifjunar og ánægju fyrir aðstandendur og aðra áhugasama. Kannski verður þessi tilraun með skötuna hvatning til að halda áfram. Sjáum til.

3 svör við “Kæst skata – tákn vellíðunar og vináttu”

  1. Ég tel mig í meðallagi fordómafullan, en hef þó reynt að smakka flestan mat áður en ég fussa og sveia. Skötu hef ég bragðað, en finnst lyktin svo yfirþyrmandi að ég get ekki komið nærri henni með góðu móti. Hákarl og siginn fisk borða ég þó með bestu lyst. 🙂

  2. Hefur þú smakkað skötu?
    Margir hafa fallið á því að prófa hana aldrei
    en dæma hana á öðrum forsendum.
    Hvað er það kallað?

  3. Þó ég sé á öndverðum meiði gagnvart skötunni, var engu að síður ánægjulegt að líta á myndirnar. Mér finnst ákaflega gaman að skoða fjölskyldumyndir, einkum fyrir innsæið sem þær veita inn í líf annarra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.