Minning – Ingileif Þóra Steinsdóttir

Ingileif Þóra Steinsdóttir frá Kollabæ, fædd 27. nóvember 1908, látin 6. desember 2006. Fáein minningarorð.

Fljótshlíð. Ein fegursta sveit landsins. Grasi gróin frá bökkum fljóts og langt upp til heiða, svo ríkulega að orð um smjör sem drjúpi af hverju strái er hvergi annarsstaðar nær sannleikanum en einmitt þar. Minningar frá bernskudögum sækja fram í hugann, „…og grasið og blómin og lækirnir voru leiksystkini okkar.“ Þannig orðaði Steinn Steinarr það.

Á þeim árum voru aðal kennileitin í lífi okkar, Kirkjulækur og Kollabær. Afi Steinn, amma Sigurbjörg og Ólafur Steinsson á Kirkjulæk, Ingileif Steinsdóttir og Sveinn Sigurþórsson í Kollabæ. Við nutum þessa fólks og alúðar þess sem afkomendur og frændur, litlir strákar úr Reykjavík, þar sem móðir okkar kær var eitt af systkinunum Steinsbörnum frá Kirkjulæk.

Að sjálfsögðu voru tengslin meiri við Kirkjulæk, afa, ömmu, Óla frænda og Guðmund afabróður smið. En tíu ára gamall var ég nokkrar vikur framan af sumri í Kollabæ hjá „Ingu frænku“ eins og við kölluðum hana. Það voru góðir dagar sem einkenndust af umhyggju hjónanna, Sveins og Ingu, og vinsemd þeirra systra, Steinunnar og Sigríðar. Glaðværð og gáski voru andrúmsloft vorsins og sumarsins og er óhætt að segja að létt lund og hláturmildi hafi verið einkenni Ingu, þessarar sérstöku frænku minnar, allt hennar líf. Ég heyri hlátur hennar enn.

Myndin hér fyrir ofan er af þeim systkinum, Ingileif, Ólafi og Gunnbjörgu. Líiklega er hún tekin árið 1933.

Móðir mín, Gunnbjörg, nefndi systkini sín ávalt með ást og hrifningu þegar hún rifjaði upp bernsku þeirra. Hún reisti í huga mínum æðra land, tignað tímabil ástríkis á kærleiksheimili föðurhúsanna og vináttu þeirra sem aldrei bar skugga á. Á döprum dögum huggaði hún sig gjarnan við endurminningarnar og rifjaði upp með trega og söknuði í svip og tóni.

Nú er Ingileif Þóra Steinsdóttir fallin frá, Inga frænka, níutíu og átta ára gömul og hlátur hennar hljóðnaður. Vafalítið var hún södd lífdaga. Og með henni er síðasta kennileiti bernskunnar í Fljótshlíð horfið. Síðasta eikin þeirra þriggja sem stóðu sterkar við sjóndeildarhringinn og vörðuðu heimsmyndina. Landslag hjartans nefndi ég það fyrr. Þannig minnist ég þeirra systkinanna. Með virðingu og þakklæti.

Votta ég dætrum hennar, Steinunni, Sigríði og Sigurbjörgu, tengdasonum, barnabörnum og öðrum ættingjum og vinum, einlæga samúð við fráfall Ingileifar og bið þeim blessunar Guðs.

Frænka mín verður sungin til jarðar í dag. Frá Breiðabólstað í Fljótshlíð.

Blessuð veri minning hennar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.