Hlustað á bækur og gengið með löbbu

Við litum við hjá henni á Borgarspítalanum í gær. Það var síðdegis. Hún er í sinni fyrstu innlögn á sjúkrahús, níutíu ára gömul, eftir blæðingu inn á heilann fyrr í sumar. Við blæðinguna lamaðist hægri hlið líkamans. Fremur litlar líkur voru taldar á að svo fullorðin kona endurheimti tapað afl. En þessari hetju er ekki fisjað saman. Nú lyftir hún hægri hendinni upp fyrir höfuðið, gengur um með „löbbuna“ sína og fer stiga á milli hæða tvisvar á dag. Einnig hafa einkenni í andliti horfið.

Ég er að tala um hana Ingibjörgu Brynjólfsdóttur frá Hlöðutúni í Stafholtstungum. Hún er föðursystir Ástu en ásamt okkur var Kristín Lív, ellefu ára, með í för. Ingibjörg, eða ætti ég að segja, Imba í Hlöðutúni, ræddi við okkur um heima og geima og var með á öllum nótum. Þegar ég spurði hana hvort hún vildi togast á við mig rétti hún mér hægri höndina samstundis og var afl hennar ótrúlegt.

Myndin hér fyrir ofan, af Imbu og Ástu, er tekin 1945 í Hlöðutúni.

Undir lok minnar þátttöku í heimsókninni, en hún og Ásta höfðu þá stungið saman nefjum um allnokkra hríð, spurði ég Imbu hvort hún læsi bækur. „Ég hlusta á bækur,“ svaraði hún, „ég hlusta á bækur, því ég sé ekki nógu vel.“ Hlusta á bækur. Þetta orðalag hafði ég ekki heyrt og hreifst af því. En í því felst að fólk fær lánaðar hljóðbækur (bækur lesnar inn á hljóðsnældur) og spilar þær. Það er hrífandi að heyra níræða konu á sjúkrahúsi segja: „Ég hlusta á bækur“. Það er líf í slíku fólki.

„Labba“ er göngugrind, grind á hjólum „einskonar vagn sem aldraður maður eða öryrki hefur til stuðnings við gang.“ Símtal til Sjálfsbjargar staðfesti að hjálpartækið er í daglegu tali, á meðal þeirra sem það umgangast, kallað labba, kvenkynsnafni sem dregið er af sögninni að labba. Það er skemmtilegt að læra tvö orð í tengslum við heimsókn á sjúkrahús. Fylgja pistli þessum baráttukveðjur og bestu óskir til allra sem fást við að endurheimta tapað afl.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.