Stökkið

Sagan segir frá nokkrum piltum sem í galsa stundarinnar leituðu eftir ævintýrum og gengu niður á bryggju. Sjórinn hafði brotið skarð í bryggjuna, „…það var allbreitt skarð, framarlega. Það var norðangola og úfinn sjór. Sá, sem á undan fór, var glanni, hann hljóp til og stökk yfir skarðið. Hann fann, að það mátti ekki tæpara standa, að hann gæti fótað sig hinumegin, það var svo langt hlaup og hált á borðunum.“

En hann manaði hina til að stökkva líka. Allir stukku nema einn. Þeir sem stukku hlógu og skopuðust að honum. „Þorirðu það ekki?“ sögðu þeir. „Nei, ég þori það ekki,“ svaraði hann, „það er ekki víst að þið gætuð bjargað mér ef ég dytti í sjóinn…“ Og Guðmundur fékk á sig orð fyrir að vera kjarklítill. Svo liðu mörg ár og piltarnir komu aftur heim í hérað að loknu námi.

Þá bar svo við um jól, þegar norðanstórhríð buldi á þekjum húsa, að kallað hafði verið á hjálp til konu í barnsnauð frammi í sveitinni. Veðurútlit var ískyggilegt og færðin mjög slæm. Þá ræddu menn um það að ekki væru miklar líkur á að læknirinn mundi treysta sér til að vitja konunnar í þessu óveðri, enda kunnur að kjarkleysi og lydduskap. En læknirinn var sá fyrrgreindi Guðmundur sem ekki hafði stokkið um árið, þrátt fyrir áskorun félaganna.

Nú var hann á leið til konunnar sem í barnsnauð var. Kom hann við á bæ á miðri leið og bað um fylgd yfir hæðina því hann rataði ekki leiðina. Á bænum voru þeir staddir félagarnir sem áður höfðu manað hann til að stökkva. Einn þeirra var orðinn sýslumaður. Allir skoruðust þeir nú undan því að fylgja honum yfir ásinn, í stórhríðinni sem úti geisaði. Læknirinn leit á þá og sagði glottandi: „Þið stökkið þá ekki?“

Þetta er kjarni lítillar smásögu eftir Þóri Bergsson, í bókinni Sögur, sem út kom árið 1947. Ég las hana nýútkomna. Þessi eina saga í bókinni, Stökkið, hefur verið mér minnisstæð en höfundinum hafði ég gleymt enda mörg ár liðin. Nú vildi svo til gær, var að eigra um í Bókasafni Kópavogs, að ég rakst á bækur Þóris Bergssonar hvar þessa sögu er að finna og fékk með mér heim og las.

Kjarni sögunnar er klár og skír eins og hann var fyrir mér um árið. Og ánægjulegt að rifja áhrifin af sögunni upp eftir alllanga lífsreynslu og kynni af margskonar stökkvurum og ekkistökkvurum.

Eitt andsvar við „Stökkið“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.