Ein af hinum notalegri endurminningum er um heimsóknir í bókabúðir. Tók að ástunda þær sem unglingur og urðu þær fastur liður í lífsmunstrinu. Minnist Bókabúðar Snæbjarnar í Hafnarstræti. Bókaforlagsins Norðra í sömu götu og bókabúðar Braga Brynjólfssonar á horninu austast við hliðina á Veiðimanninum. Einnig voru bókabúð Sigfúsar Eymundssonar og Mál og menning fastir viðkomustaðir. Og ekki má gleyma Helgafelli á Veghúsastíg.
Starfsfólkið í búðunum varð kunningjar og ræddi við mann um nýjar og gamlar bækur. Sýndi viðskiptavinum yfirleitt alúð í samskiptum. Það þótti sjálfsagt á þeim árum og var ánægjulegt. Á liðlega hálfri öld hafa margir starfað við afgreiðslu í þessum verslunum eins og gefur að skilja. Sumir þeirra snillingar í mannlegum samskiptum. Þegar allangur tími leið frá síðustu heimsókn, sem gat stafað af þeim störfum sem til féllu, svo sem langra túra á togurum, sveitastörfum á sumrum eða skólavist úti á landi, þá var manni gjarnan fagnað og spurt hvað hefði valdið og á dagana drifið.
En heimsókn í bókabúð var ávallt fastur liður þegar komið var í bæinn sem síðar breyttist í borg. Þá skoðaði maður í hillurnar forvitinn, renndi fingrum eftir kjölum bókanna og las á þá. Það var nautn í þessu. Minnist atviks eitt sinn, á efri hæðinni í Máli og menningu á Laugavegi. Þekkt kona í þjóðlífinu, virtur kennari, skreið eftir gólfinu til að lesa á bækur í neðstu hillunum. Þarna voru erlendar bækur og í stafrófsröð, a-ið í efstu hillu og tvöfalda waff- ið í þeirri neðstu, alveg niður við gólf. Ég var svo heillaður af áhuga konunnar að ég kraup og skreið á eftir henni og las á kilina. Þarna neðst, í rykinu, voru stórmenni eins og Wilde, Whitman, Woolf og Wordsworth svo ég nefni fáeina.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér nýlega. Ég kom inn í eina af þessum bókabúðum þar sem ég hafði oftast komið við í gegnum tíðina. Tíðina, segi ég, en bókabúðaheimsóknatíð mín nær nú yfir nærri sextíu ár og ekki hægt að giska á fjölda keyptra bóka. Við afgreiðsluna var sjöunda eða áttunda kynslóð afgreiðslufólks. Mögulega eru kynslóðirnar fleiri. Ég spurði eftir bók í ritröð Lærdómsritanna, Játningum Ágústínusar. Forlagið sem gefur hana út tók að auglýsa hana í október síðastliðnum. Og spurði því afgreiðslufólkið hvort hún væri komin? Enginn virtist kannast við bókina.
Þá varð mér á að segja frá bókinni. Hún hafi verið gefin út áður eða árið 1962, en verið gjörsamlega ófáanleg í fjöldamörg ár. Kæmi núna í lengri útgáfu. Og mig sárvantaði hana vegna viðbótarinnar. Þá svaraði mér kona, mikilúðleg kona sem virtist vera í forsvari fyrir bókadeildina, að þetta vissi hún ekkert um, hún hefði ekki verið fædd þá. Fædd þá, hvað kemur það málinu við? Og vissulega leit hún út fyrir að hafa verið fædd þá.
Svona var manni aldrei svarað á árum áður. Þá lét starfsfólkið sig ekki muna um að ræða málið og jafnvel að hringja í útgefendur til að leita svara. Ég tala ekki um ef lítið sem ekkert var að gera eins og var í þessu tilfelli. Gramur í lund yfirgaf ég búðina. Þetta hljómaði ekki eins og takk fyrir viðskipti í nærri sextíu ár.