Góðir dagar í sveitinni

Það er ein af guðsgjöfunum, litla húsið okkar Ástu í sveitinni. Við vorum þar um helgina. Fengum stóra helgi. Guðir veðursins deildu út ljúfleika (hef aldrei skilið til fullnustu tal um veðurguði) og allan tímann var stafalogn. Hitastig var allt að fjórar gráður í plús. Það er ekki sjálfgefið á slóðum ,,inn til landsins” eins og Veðurstofa Íslands orðar það. Þá var jörð auð og tiltölulega blítt yfir að líta.

Ásta átti afmæli á föstudag. Dagurinn var helgaður því og Íslenski fáninn dreginn að húni árla. Vinir og ættmenni höfðu samband í tilefni dagsins. Fyrsta ,,smessið” barst klukkan hálf átta. Það næsta liðlega átta. Einkenndist dagurinn allur af kveðjum og hlýjum orðum. Þar á meðal var símtal frá Suðurey í Færeyjum og tvö frá Grænlandi svo og mörg önnur.

Í sameiningu höfðum við Ásta lagt okkur til nýja ferðatölvu og fór tími í að koma henni af stað og læra á hana. Smám saman tókst það nú samt. Undir kvöld íklæddist ég svo matsveinahamnum og eldaði stóran humar í eplarjómasósu, lostæti sem stóðst allar væntingar. Að máltíð lokinni settum við eina af uppáhaldsplötum okkar á fóninn, Love Letters, plötu sem ég sendi Ástu heim til Íslands þegar ég var í Sisimiut á Grænlandi árið 1969, og dönsuðum við úti á pallinum næsta klukkutímann og rifjuðum upp góðar og heitar stundir.

Á laugardagsmorgun hafði snjóað. Sjö til tíu sentímetra jafnfallinn snjór lá eins og voð yfir landinu. Enn var logn og blíðskaparveður og fallegt yfir að sjá. Bændabýlin nær og hross í hópum sem skáru sig úr í hvítu landinu og fjöll og jöklar fjær. Inni lögðumst við í bækur og samræður og þagnir og nutum nærveru og nálægðar hvors annars. Upp í hugann kom setning úr bók Indriða G. Þorsteinssonar, Þjófi í Paradís, um fólk sem hafði ánægju hvert af öðru.

Um miðjan dag leit systir Ástu, Bryndís bóndi í Kalmanstungu, við og ræddu þær málefni dægranna og skoðuðu í tölvunni myndir sem Ágúst hafði tekið í Chicago á dögunum. Sjálfur læddist ég undir sæng með Frege, Russel og Wittgenstein. Það er verst með félagsskap þeirra ágætu manna að hann æsir mig upp þótt ég hefði fremur kosið að hann róaði mig. Og því meira sem ég glugga í afurðir hugsuðanna því fyrirferðarmeiri verða margar þeirra spurninga sem leitað hafa á í gegnum tíðina og hvergi fengist viðhlítandi svör við.

En þannig er nú lífið, einfaldlega. Það vekur fleiri spurningar en svör. Hvað sem öllu líður. Og þá er gott að eiga góðan ástvin sem krækir hönd í hönd og hvíslar: „Við höfum svo margt að þakka fyrir.“

Það var logn og heiðskírt þegar við lögðum af stað heimleiðis upp úr hádegi. Á Kjalarnesi gekk hann á með hríðarbyl.

Þessi pistill er afmæliskveðjan mín.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.