Þrír dagar í París III

Eftir upplifunina í hinni miklu kirkju Notre Dame og spjall og samræður um Esmeröldu og Quasimodo, persónur Victors Hugos í Maríukirkjunni, ákváðum við að eiga þægilegt kvöld þennan fyrsta dag okkar í París og njóta þess að anda að okkur stemningu aldanna sem allstaðar er að finna á bökkum Signu.

Um kvöldið sátum við á Cafe Notre Dame á horninu á rue des Petit út við Montebello eftir að skyggja tók. Það er ógleymanlegt. Maður velur sér sæti úti, austan við hornið, og setur bakið upp að húsinu. Þá er gott útsýni með bókakassana og brúna í forgrunni ásamt stóru trjánum á árbakkanum og bak við mikið lauf þeirra er Notre Dame, flóðlýst og glæsileg í myrkrinu, bjargföst eins og sagan. Á meðan þú situr þarna eftir ævintýri dagsins og fylgist með fólkinu við næstu borð, en þau eru öll þéttsetin, sem á í innilegum samræðum í vináttu og horfir ástúðlegum augum hvert á annað og snertir hendur hvers annars með fingurgómunum, skilur þú á nýjan hátt að þú ert í París um kvöld. Engin er að flýta sér, allir virðast treina stundina og njóta yls og hlýju af nærveru vinar.

Allt í einu var eins og laufið á stóru trjánum á árbakkanum lifnaði á einhvern undarlegan hátt og áin, í bókstaflegum skilningi, fylltist af skæru ljósi sem kom undan brúnni og lýsti hana upp, leið upp eftir henni og trén tóku á sig margvíslleg blæbrigði þegar ljósin lýstu upp undir lauf þeirra og færðust hægt framhjá. Stórir fljótabátar, útsýnisbátar fullir af fólki, sigldu upp eftir ánni með stuttu millibili, setnir ljóskösturum á báðum síðum, stafna á milli, sem fylltu ána og árbakkana, húsin og trén umhverfis af þessu flæðandi ljósmagni. Á milli báta var dimmt. Það var stórkostlegt að sitja þarna á kaffistofunni og horfa á þessa þúsund lampa veislu. Við sátum lengi og nutum þeirra tilfinninga sem umhverfið vakti með okkur. Lauk hér hinum fyrsta degi.

Annar dagurinn hófst. Það var grár morgunn eins og gjarnan er í París í september. Við ætluðum í gönguferð þennan dag, fræga gönguferð sem við byggðum á bók Hemingway´s, A Moveable Feast eða Paris est une fête eða Veislan í farangrinum í yndislegri þýðingu Halldórs Laxness.

Þegar við komum út af hótelinu beygðum við því inn rue Monge og gengum upp brekkuna að rue Cardinal Lemoine. Rue Cardinal Lemoine er á fótinn en efst uppi í kverkinni fundum við númer 74. Við gengum þar um og skoðuðum umhverfið. Ég reyndi að ímynda mér hljóðin í súkkulaðivögnunum eins og þau höfðu verið fimmtíu árum áður. Við fórum síðan um Pl. Contrescarpe og skoðuðum torgið og það var aðeins einn gestur á Cafe des Amateurs. Síðan héldum við til baka inn Cardinal Lemoine og fram hjá Lycée Quatre og kirkjunni gömlu St. Etinne-du-Mont og Pl. Pantheon, þar sem var svipótt og áfram niður rue Sufflot, niður á St. Michel og inn eftir Montparnasse.

Næst gengum við Notre Dame des Champs, framhjá númer 113 og héldum áfram niður á rue de Fleurus og stönsuðum við númer 27, þar sem Gertrude Stein bjó ásamt vinkonu sinni. Því næst lá leiðin gegnum Jardin du Luxemburg, en þar gat fólk leigt sér smáhesta til að teyma undir börnum sínum. Sérstaka ánægju vakti að sjá rauðu fiskana synda í tjörninni í Fontaine de Médicis. Þaðan fórum við norður úr garðinum og niður rue de l`Odeon og skoðuðum númer 12, þótt hvergi væri Sylviu Beach að sjá en um hana sagði Hemingway: „Ég hef engan þekkt sem mér hafi verið hollari í hugum“. Síðar fundum við Cafe de Clune og ákváðum glorsoltin að fá okkur veitingar þar. Við völdum sæti úti, St. Germain megin, alveg inni í horninu við glervegginn og pöntuðum þrjú spælegg á mann. Sátum við þarna lengi og hvíldum og rifjuðum upp ævintýri dagsins.

Allt í einu varð feikna uppnám á gatnamótunum sem við sátum við. Tveir brynvarðir bílar komu aðvífandi með sírenuvælið á fullu og stönsuðu úti á miðri götu. Hópur hermanna geystist út úr þeim og raðaði sér á götuhornin fjögur og umhverfis mannlausan hálfkassabíl sem stóð þar rétt hjá. Ráku þeir gangandi vegfarendur í burtu með harðri hendi og blásið var í hvella flautu og skipanir gefnar. Mikið kraðak af bílum og fólki safnaðist við svæðið sem hermennirnir lokuðu af. Tveir sérlega útbúnir menn færðu sig nær hálfkassabílnum og báru fyrir sig mælingatæki. Þeir fikruðu sig áfram að bílnum og inn í hann. Allt var hljótt og mikil spenna í loftinu. Eftir nokkra stund komu þeir út úr bílnum og gáfum merki og þá var eins og allt losnaði úr spennunni. Flautan flautaði, foringjarnir hrópuðu og liðið hljóp aftur inn í brynvörðu bílana sem óku á brott. Eftir hálfa klukkustund var allt komið í samt lag aftur og skildist okkur að reiknað hafi verið með sprengju í kassabílnum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.