Þau sorglegu tíðindi bárust okkur í gærmorgun að bróðir Ástu, séra Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, væri á leið á bráðadeild Landspítalans í Reykjavík, meðvitundarlaus eftir hjartaáfall. Stundu síðar kom tilkynning um að hann hefði látist á leiðinni. Ólafur var aðeins 62 ára og því sviplegt andlát hans reiðarslag fyrir fjölskyldu hans, vini og samstarfsfólk. Hann hafði þjónað söfnuðinum í Keflavík í um það bil 30 ár.
Það verður skuggi sorgar og saknaðar yfir jólahaldi fjölskyldu hans og vina þessa daga, daga sem venjulega tengjast gleði og fögnuði yfir komu frelsarans til manna. Ljósi heimsins. Séra Ólafur hefur ávallt tekið þátt í að syngja jólin inn með söfnuði sínum og verður því skarð fyrir skildi þessi jólin. Þá munu þeir einnig sakna hans sem nutu huggunar hans og hughreystingar á sorgar og erfileikatímum, en séra Ólafur var einstaklega alúðlegur og skilningsríkur við kringumstæður fólks á raunastundum.
Börnum Ólafs Odds, tengdabörnum og barnabörnum, svo og öðrum ástvinum hans votta ég innilega hluttekningu mína, með bæn um að huggarinn mikli, Drottinn Jesús Kristur, andi ilmi elskunnar blíðlega inn í hjörtu þeirra og sefi sárustu sorgina á þessum erfiðu dögum.
Kæru hjón, ég votta ykkur innilega samúð. Kær kveðja Kristinn P. Birgisson
Við vottum ykkur dýpstu samúð.
Erling og Erla
Votta ykkur, elsku amma og afi, innilega samúð mína.