Að sjóða litla fiska

Sennilega eru fáar bóka minna mér eins nytsamar og Bókin um veginn eftir meistara Lao-tze. Aftur og aftur hef ég lesið hana, lagt hana frá mér og tekið upp aftur. Alltaf minnti hún mig á gildi æðri þeim sem í hversdeginum strita. Og gerði mér gott.

Hún hjálpaði mér til að staldra við í margskonar stríði við vindmyllur, spýtur upp og spýtur niður, sem snérust og snérust. Og hún hjálpar mér enn til að svelgja ekki úlfaldana. Minnir mig á að staldra við og anda djúpt. „Þá er menn skynja fegurðina, hafa þeir jafnframt hugfest, hvað sé ljótt. Þá er menn finna til gæskunnar, er jafnframt ljóst, hvað ekki er gott.“ (2:1)

Lao-tzeUm hið dásamlega samræmi segir: „Þótt það (barnið) hríni allan daginn, finnur það ekki til hæsi. Þannig er samræmið í eðlisfari þess.“ (55:2). Góða leiðbeiningu fyrir umba má sjá í þessum orðum: „Sá, sem veit, hve ljóminn gengur í augun, en heldur sig þó í skugganum, verður fyrirmynd allra að hógværð.“

Hógværð, hún var eitt af því sem meistarinn frá Nasaret taldi með því mikilvægasta í fari manna: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur,….“ (Mt.11:29). Það er talsverður vandi að láta ekki vindhviður dægurþrassins þeyta sér um götur og torg. Strengur þeirra er oft svo stífur. Bókin um veginn er margslungin, hún hýsir margar hugsanir sem virðast auðga tilveruna: „Himni og jörðu er allt jafn-kært; þau virða allt og alla sem hátíðleg fórnartákn. Hinum vitra er allt jafnkært; hann lítur á alla með lotningu.“

Ég enda þessa mánudagshugleiðingu með orðum Jesú Krists: „Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir , sem finna hann.“ (Mt. 7:14).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.