Að fá að vera manneskja

Stúdentablaðið kom mér á óvart í morgun. Mannvit, menntun og hlýja gæti verið einskonar aðalumsögn um það. Við lestur greinar um Gunnfríði Lilju Grétarsdóttur fylltist hugur minn af aðdáun. Það andar svo hlýju frá henni, lífsviðhorfum hennar og viðfangsefnum. Það mætti heyrast oftar af slíkum einstaklingum. En kannski eru þeir ekki margir. Viðhorf hennar til ástarinnar og þeirra forréttinda að fá að upplifa það að verða ástfangin eru full af hlýju og mannskilningi.

Guðfríður Lilja er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og sagnfræði frá Harvardháskóla í Bandaríkjunum, auk M.Phil í hugmyndasögu og heimspeki frá Cambridgeháskóla í Englandi. Hún starfar sem sérfræðingur á alþjóðasviði Alþingis, og er forseti Skáksambands Íslands. Um veru sína í Harvard segir hún: „Það að lifa og hrærast þar í fjögur ár setti öll viðmið á mjög hátt plan. Þegar ég lít til þess fólks finnst mér ég ekki vera neitt sérstaklega dugleg.“

Og ennfremur segir hún um veruna í Harvard: „Þetta var ómetanleg lífsreynsla… …Þar eru sett upp tugir leikrita, fjölmargir sönghópar starfandi, dagblöð gefin út og tímarit… …nemendur frá öllum heimshornum… …fólk úr minnihlutahópum í ýmsum áhrifastöðum, blökkufólk, samkynhneigðir og þessháttar. Ef einstaklingur lifir og hrærist í samfélagi sem þessu dag eftir dag hefur það mjög djúp áhrif á hann og stöðluð viðhorf samfélagsins taka að breytast.“

Og á öðrum stað segir hún: „Mér finnst barátta samkynhneigðra samt sem áður ekki snúast eingöngu um réttindi samkynhneigðra. Heldur er þetta einnig barátta fyrir því að fá að vera manneskja….“

Að fá að vera manneskja. Það er auðvitað eitthvað sem flestir menn telja vera sjálfsögð réttindi sín. En svo er til hugmyndafræði í ýmsum hópum sem álíta sig þess umkomna að berja á öllum sem ekki eru nákvæmlega eins og þeir sjálfir. Hópar sem samanstanda af fólki sem hefur alið allan aldur sinn í helli og snúið baki í birtuna. Fólk sem hefur forpokast í neikvæðustu viðhorfum fornaldar og lagt sérstaka áherslu á þau sem hafna mannskilningi og mannelsku. Mann grunar að á einhvern hátt séu slíkir boðberar seinfærir og hafi aldrei numið gildi elskunnar sem „umber allt.“

Að fá að vera manneskja. Það ættu allir að leggja sig fram um að greiða götu náungans til þess að ná því marki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.