„„Það eru engir diskar,“ sagði Anselmo. „Notið ykkar eigin hnífa.“ Stúlkan hafði reist fjóra gaffla upp við járnfatið, tindana niður. Þeir átu allir úr fatinu, þöglir, eins og Spánverja er siður. Það var kanína elduð með lauk og grænni papriku og það voru kjúklingabaunir í rauðvínssósunni. Þetta var vel eldað, kanínukjötið laust á beinunum og sósan var lostæti.“
„Robert Jordan drakk annan bolla af víni á meðan hann borðaði. Stúlkan fylgdist með honum alla máltíðina. Allir aðrir fylgdust með mat hans og háttum. Robert Jordan þurrkaði síðustu sósuleifarnar af fatinu með brauðbita, raðaði kanínubeinunum til hliðar, þurrkaði svæðið þar sem þau höfðu legið, síðan þurrkaði hann af gafflinum með sama brauðbitanum, þurrkaði hnífinn sinn og setti hann til hliðar, og borðaði brauðbitann.“
Bókin Klukkan kallar eftir Ernest Hemingway kom út á íslensku árið 1951. Skömmu síðar las ég bókina og hafði mikla ánægju af. Þessi safaríka lýsing á máltíðinni sem söguhetjurnar snæddu í fjallafylgsninu grópaði sig í hugann sem mynd af hinni miklu nautn að borða góða máltíð, glorsoltinn, úti í mörkinni. Söguhetjurnar, Róbert Jordan, Pilar, Pablo og María hafa verið eins og kunningjar allar götur síðan. Stundum brá ég á leik með fjölskyldunni minni og endursagði frásöguna af sósunni og brauðinu, og þá prófuðu allir nærstaddir að vinna sósuleifar af diskum sínum með brauði. Og nutu þess.
Tilefni þessa pistils er að segja frá því að í gær eldaði ég loksins kássuna hennar Pilar. Varð þó að hafa kjúkling í stað kanínu þótt einhver hafi lagt til að farið væri í veiðiferð upp í Öskjuhlíð. Skorpubrauð fékk ég í Mosfellsbakaríi á Háaleitisbraut, en skorpubrauð er nauðsynlegt með réttinum. Og til gamans læt ég uppskriftina fylgja hér með ef einhver skyldi hafa svo mikið dálæti á bókinni að vilja prófa.
3-4 pund kanínukjöt (kjúklingakjöt)
2 bollar rauðvín
4 laukar, gróft skornir
4 grænar paprikur, gróft skornar
1 bolli kjúklingabaunir
1 lárviðarlauf
2 msk. paprikuduft
2 tsk. salt
3 msk. hveiti.
Uppskriftin er fyrir sex. Kjötið er skorið í bita. Sett í pott ásamt víni, lauk, papriku, kjúklingabaunum, lárviðarlaufi, paprikudufti og salti. Vatni helt yfir svo að hylji og soðið við vægan hita í tvo tíma. Hveitinu blandað saman við 4 msk. af vatni og sósan þykkt undir lokin. Borið fram með miklu af grófu skorpubrauði.
Ath. Mér fannst þurfa meira af kryddi, bæði salti og paprikudufti. En hver og einn getur prófað sig áfram. Við Ásta hugsuðum til Pilar á meðan við borðuðum og unnum sósuna upp af diskunum með brauði. Um Pilar er sagt: „Kona um fimmtugt, næstum eins stórvaxin og Pablo, næstum eins sver og hún var há […] þeldökkt veðurbarið andlitið líkast uppkasti að minnismerki úr graníti. Hún hafði stórar vel lagaðar hendur og þykkt liðað hár hennar svart, var undið upp í hnút í hnakkagrófinni.“
takk fyrir matinn ..