Þú skalt elska

Í bók eftir Sartre sem ég las fyrir tugum ára, hún heitir sennilega „Teningunum kastað“ í íslenskri þýðingu, minnir mig að þemað hafi verið nokkurn veginn þannig að þeir sem elska komist af. Stríðsmaður leitaði óvina í húsi, herbergi eftir herbergi, vopnaður og reiðubúinn að fella sérhvern mann. Í einu herberginu ákváðu karl og kona að elskast á ógnvekjandi stund endalokanna. Þegar stríðsmaðurinn geystist um húsið og kom að herbergi þeirra og leit inn og sá hvað um var að vera, gekk hann framhjá.

Þetta þema kom upp í hugann í gærkvöldi á sýningu í Þjóðleikhúsinu, Jóni Gabríel Borkmann. Egoistinn Jón Gabríel hafði sem ungur maður gefið eftir konuna sem hann elskaði og fengið í staðinn bankastjórastarf og að sjálfsögðu vald og virðingu. Valdið og virðingin urðu honum ekki heilladrjúg og fóru þannig með hann að hann endaði rúinn æru og efnum. Lifði eftir það aflokaður og einangraður með draumum sínum og sjálfsblekkingu um endurreisn.

Upp í hugann kom Biblíumyndin úr Matteusarguðspjalli. Djöfullinn freistaði mannsins Jesú á fjallinu. Hann lagði sig fram um að höfða til egós hans. „Bjóð þú að steinar verði að brauðum. Kasta þér fram af brún musterisins.“ Og loks tekur djöfullinn Krist með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“

„Þú skalt elska,“ segir ritningin og engill ógæfunnar gekk framhjá húsum þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.