Frelsi

Það eru ennþá áramót í huga mínum. Nýja árið er eins og flugbraut framundan. Í huganum. Þessir fyrstu dagar eru eins og biðtími eftir leyfi til flugtaks. Á biðtímanum les maður og heyrir fregnir af fólki og atburðum. Saknaði meðlíðunar í orðum forseta Íslands með fátæku fólki, eldri borgurum, yngri borgurum og vanbúnum borgurum. Heyrðist að samúð hans næði fremur til milljarðamæringanna. Ætli hann sé orðinn einn af þeim?

Líkaði betur að heyra í forsætisráðherra. Hann sagði ýmislegt sem litlir karlar hafa hugsað en veigrað sér við að ræða upphátt. Í dagblaði í morgun eru forráðamenn ríkustu fyrirtækja landsins spurðir um útlit og horfur í afkomumálum fyrirtækja þeirra. Flestir virðast hafa mestan áhuga á þeim ríku. Hef ekki séð slíkar spurningar lagðar fyrir fátækt fólk. Sú var tíðin að til voru fjölmiðlar sem létu sér afkomu hinna fátæku varða.

Það sem grátlegast er við aðdáun manna á milljarðamilljörðum, er að svo virðist sem ástríðufull ást þeirra á fjármagni geri þá afhuga fólkinu í landinu. Þeir láta jú detta nokkra hundraðþúsundkalla hér og hundraðþúsundkalla þar, til einstakra félaga og stofnanna gæta þess og að fréttamenn séu viðstaddir þær brosríku athafnir, en almenningur er kreistur, án miskunnar, með háu verðlagi á vörum og þjónustu og lágum launum.

Nýja árið er eins og flugbraut framundan. Í huga mínum. En ekki fæ ég séð hvað karlar eins og ég hafa við leyfi til flugtaks að gera. Hugsuðirnir segja að það sé firra að segja að nokkur maður sé frjáls. Hann hafi aldrei verið frjáls og verði aldrei frjáls. Hann sé ævinlega bundinn í einhverja fjötra. Ef ekki af öðrum þá af sjálfum sér. Því hann sé ekki fær um að vera frjáls. Eða, hvað er að vera frjáls?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.