Fimm plús ein

Mætt að nýju við horngluggann, árla, með sjóðheitt kaffi, lét ég í ljós innilega gleði yfir endurkomu Ástu og nærveru. Í miðjum bolla númer tvö tók hún að segja frá ferðinni á ráðstefnuna sem haldin var á Skagen á nyrsta odda Danmerkur. Þar komu saman um 170 starfsmenn félagsmálastofnana norðurlandanna til að hlusta á sérfræðinga og fræðast um störf kolleganna.

Ásta fór með starfsfélögum sínum á Sólvallagötunni, Stuðningnum heim, eins og verkefni þeirra heitir. Þær voru fimm þaðan og fylgdi sú sjötta með en hún heyrir til annarri deild. „Við erum sex,” sögðu þær þegar þær pöntuðu mat. Og þjónarnir gripu það á lofti. „Eruð þið sex?” Eftir það sögðust þær vera fimm plús ein.

Fyrirlesari frá Bretlandi, Neil Wragg, sagði frá og kynnti starf sitt við „Youth at risk, ” skammstafað YAR, þar sem hann er forstöðumaður. „Ástríðan skiptir mestu máli,” sagði hann og fann Ásta samhljóm með því sem hann sagði og Samhjálparstarfinu eins og það var unnið á hennar dögum þar.

Eitt kvöldið var allsherjar kynningarkvöld með matarveislu, skemmtiatriðum og dansi. Fólk dró um borðfélaga. Allar þjóðir skyldu syngja söng frá sínu landi. Eiríkur Hauksson, kennari og söngvari, var þarna sem starfsmaður félagsþjónustu í Noregi. Hann tók að sér að leiða söng íslendinganna. Fjöldasöngur í lok kvöldsins hljómaði svona: „Go´nu nat og go nu lige hjem / mens du stadig er med fulle fem.”

Einn daginn var boðið upp á trommu kúrs, AFRO-SESSION. Markmiðið var að upplifa í gegnum tónlist hagnýtt samstarf og tengingu. Stjórnandinn kom með fullan bíl af bongotrommum sem hann útbýtti til þátttakenda. Allir áttu að taka þátt, banka sína trommu og læra að finna taktinn. Sungnir voru afrískir söngvar.

Á milli atriða lét hann fólk standa upp og lyfta höndum og hrópa hallelúja. Þegar einhver gerði villu á trommuna sína var einnig staðið upp og hrópað hallelúja. Það var stuð og stemning. Og öllum varð eðlilegt að lyfta höndum og hrópa hallelúja. Eitt af því sem kom Ástu á óvart, í tali fyrirlesara og annarra sem fram komu, var að allir töluðu um Guð eins og sjálfsagt mál í starfi sínu.

Frank Thomas Staub útskýrði táknmál líkamans og sýndi fram á hvað líkamsstellingar og handahreyfingar hafa mikla þýðingu í samneyti fólks.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.