Vanhæfni stjórnmálamanna!

Hvernig skyldi nýi stjórnarsáttmálinn líta út? Skyldi hann sýna okkur fram á að ríkisstjórnir kunni einfaldlega ekki að stjórna og að þessi nýja ríkisstjórn, sem á að opinbera í kvöld, verði sama aulasamkoman og sú sem fór frá eftir langtíma veglagningu til helvítis?

Ég er nokkurn veginn orðvana eftir að hafa horft á Silfur Egils í dag. Og það er ekki í fyrsta sinn. Það sem þar kom fram bendir til þess að ríkisstjórnir kunni ekki að stjórna og að þeir sem stjórna bönkum og fjármálum séu svo miklu færari á sínu sviði heldur en nokkur stjórnmálamaður á sínu.

Allt það sem Ann Pettifor sagði fékk mann til að halda niðrí sér andanum. Hún virtist vita upp á hár hvað hún sagði og það var ekki hughreystandi fyrir „þrælana“, eins hún nefndi hinar vinnandi stéttir, fórnarlömb banka og bankaveldis.

Það er ekki auðvelt fyrir venjulegan hversdagsblesa að vinna úr öllu því sem Pettfor sagði. En orð hennar valda kvíða. Ekki er ósennilegt að sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar muni einnig valda kvíða. Miðað við orð Pettifor hafa áherslur Jóhönnu og Steingríms undanfarnar vikur að mestu einkennst af sömu vanhæfni og fyrri ríkisstjórna. Og við vitum hvert hún leiddi þjóðina.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.