Rauðir úlfar

Fyrst þegar ég heyrði frá því sagt að kona nokkur, sem ég kannaðist við, þjáðist af „rauðum úlfum“, þá hváði ég við og brosti með sjálfum mér. Einu kynni mín af rauðum úlfum voru frá því í bernsku, þegar mér, tíu eða ellefu ára gömlum, var gefin nýlega útgefin bók eftir Rudyard Kipling, Dýrheimar sögur úr frumskógum Indlands. Ein sagan í henni fjallar einmitt um rauða úlfa og drenginn Mowgli sem ólst upp með þeim.

Það næsta sem gerðist á milli mín og skáldsins Rudyard Kiplings er að í Ljóðmælum Magnúsar Ásgeirssonar las ég fyrir margt löngu ljóðið Synir Mörtu, sem Magnús hefur þýtt á sinn meistaralega hátt. En eins og allir vita þá var Magnús einn af hæfustu ljóðaþýðendum Íslendinga.

Í þriðja lagi þá barst mér fyrr á þessu ári þriðja hefti tímaritsins Glímunnar, sem gefin er út af Grettisakademíunni. Frábært hefti með spennandi og fróðlegu efni. Ein greinin í þriðja heftinu heitir einmitt Synir Mörtu og er skrifuð af Atla Harðarsyni, MA í heimspeki. Atli veltir fyrir hugsun og skilningi Kiplings á mismunandi hlutverkum systranna Mörtu og Maríu og afkomenda þeirra. En ljóð Kiplings fjallar einmitt um versin 38 – 42 í 10. kafla Lúkasarguðspjalls. Þar segir:

„Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María hefur valið góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.““

Grein Atla og ljóð Kiplings er hægt að nálgast hér sem og allt efni Glímunnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.