Bláa kannan

Skáldsagan Karítas eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Var að ljúka við hana. Lauk henni. Hef ekki haft úthald til að ljúka Íslenskri skáldsögu síðan Skugga-Baldri Sjóns. Var hrifinn af henni. Er líka hrifinn af Karítas. Sérílagi fyrsta hlutanum. Hann er magnaður. Hefur þennan sterka undirtón sem kraftmikil skáldsaga á hafa. Svo sterkan að maður finnur fyrir honum allan tímann. Án þess að vera nefndur.

Seinni hlutarnir eru ekki jafn sterkir. Óþarflega langir. Efnið er þó hrífandi. Afar hrífandi. En það er vandi að skera niður. Sársaukafullt. Höfundum er vorkunn þegar að því kemur. Að skera niður og fella út. En sennilega batna allar bækur við það. Þessi bók hefur kláran tón. Örlögin, ástríðuna, sturlunina og óreiðuna. Hetjur sögunnar eru frábærar. Kvenhetjurnar.

Það fer lítið fyrir karlhetjum. Vel að merkja. Ákveðið raunsæi í því. Ekkja og sex barna móðir, Steinunn (klettur) og bústýran í Öræfum, Auður (viska) eru tákn hinna miklu öxla sem bera vagnhjólin. Konurnar sem efla og hvetja mannfólkið í umhverfi sínu. Konurnar sem trúa á einstaklingana og viðbótargetu þeirra. Konurnar sem ekki gera neinar kröfur fyrir sig sjálfar. Þær vekja aðdáun. Lotningu.

Sagan gerist á Íslandi, fyrir vestan, fyrir norðan, fyrir austan og fyrir sunnan. Það er hrífandi. Og segir frá stöðu og störfum kvenna allt frá þvotti á tíðatuskunum þeirra. Þöglu störfunum huldu sem tilveran hvílir á. Enda tíðkaðist ekki í þeirri sveit að karlmennirnir mjólkuðu kýr. Og ekki var það eina sveitin. Sei, sei, nei.

Og Karítas án titils. Hinar allar höfðu titil. Þið ættuð að lesa söguna hennar. Hún er stórkostleg. Hefði verið gaman að sjá hana kvikmyndaða.

Myndin hér fyrir neðan er eftir Bruegel.The Fall of the Rebel Angels. Myndum Karítasar er líkt við myndir hans. Smellið á hana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.