Gamlir fótboltataktar

Boltinn kom skoppandi niður gangstéttina. Ég skimaði eftir strákum sem ættu hann, sbr. „Eftir bolta kemur barn“, en kom ekki auga á neina. Þá hljóp í mig þessi gamli fiðringur. Ég hugðist bregða á leik og rifja upp fótboltatakta frá unglingsárunum. Taka hann utan fótar og spila með hann upp að næsta götuhorni. Ég setti mig í stellingar og mundaði hægri fótinn. Þá sá ég bandið.

Þetta reyndist vera hundur í bandi. Eða hundkvikindi. Hann var gulbrúnn, kafloðinn og hnöttóttur. Enginn haus, ekkert skott, engir fætur. Það mátti engu muna að ég hefði sparkað. Bandið sem hann var í náði langt upp eftir götunni og á hinum endanum var kona. Hún var líka kafloðin og hnöttótt. Eins og bolti. Nei, hún var eins og bauja. Þið hefðuð átt að sjá augnaráðið sem hún sendi mér þegar hún strunsaði fram hjá.

Eitt andsvar við „Gamlir fótboltataktar“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.