Helgi og Hannes – tveir dagar til kosninga

Jörð var hvít í birtingu. Við sólarupprás tók snjófölina upp. Helgi var mættur á undan Hannesi sem glaður í bragði heilsaði félaga sínum um leið og hann settist hjá honum.

Hannes: Gleðilegt sumar, Helgi.
Helgi: Er útlit fyrir það?
Hannes: Útlit fyrir hvað?
Helgi: Að sumarið verði gleðilegt.
Hannes: Er þessi gállinn á þér í dag?
Helgi: Gáll eða ekki gáll.
Hannes: Af hverju ertu önugur í dag?
Helgi: Er það nokkuð nýtt?
Hannes: Nei. Svo sem ekki.

Nú varð nokkuð löng þögn. Hannes skotraði augunum til Helga og reyndi að meta hversu þungt honum var í skapi. Loks lagði hann í að hefja samtal.

Hannes: Þú ert ekki með barnavagninn í dag?
Helgi: Hvað barnavagn?
Hannes: Þennan sem þú fórst með niður að Alþingishúsi um daginn.
Helgi: Hann er glataður.
Hannes: Kom eitthvað fyrir?
Helgi: (Eftir nokkra þögn) Þegar ég kom út úr sjoppunni var hann horfinn.
Hannes: Horfinn. Bara si svona?
Helgi: Já.
Hannes: Hvað gerðir þú?
Helgi: Hvað gat ég gert?
Hannes: Hringt í lögguna kannski.
Helgi: Nei. Hann var ekki þess virði. Verst með bjórkippurnar.

Hannes: Ætlar þú að kjósa?
Helgi: Ég veit það ekki.
Hannes: Þú hefur alltaf kosið, er það ekki?
Helgi: Alltaf.
Hannes: Hvað myndir þú kjósa?
Helgi: Ég veit hverja ég ekki kýs.
Hannes: Það er í áttina.
Helgi: Ég fór á fund. Ljóta þvælan. Frambjóðendur í röð við háborð. Fundarstjóri spurði um stefnu. Enginn svaraði spurningunni. Allir bentu á hvernig hinir stefndu þjóðinni til helvítis.
Hannes: Útskýrði enginn stefnuskrá sína.
Helgi: Nei. Maður var engu nær.
Hannes: Sastu allan fundinn?
Helgi: Ég fór þegar einn var spurður hvort hann væri á móti álveri.
Hannes: Hverju svaraði hann?
Helgi: Já, nei.

2 svör við “Helgi og Hannes – tveir dagar til kosninga”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.