Málefnalega staurblankur flokkur

Veturinn er á síðasta snúningi samkvæmt almanaki. Harðasti vetur í manna minnum. Þjóðhagslega. Og ekki nema von að himininn gráti þessa dagana með sauðsvörtum almúga. Samkvæmt þessu sama almanaki hefst sumar á miðnætti. Ekki er útlit fyrir að það verði gott sumar, þjóðhagslega. Vísitala væntinga þeirra sauðsvörtu er í algeru lágmarki.

Á laugardag skal kjósa. Aðdragandi kosninganna hefur verið sorglegri en dæmi eru um. Stærsti flokkurinn hefur rýrnað og rýrnað. Það er fyrirliðum hans og þingmönnum að kenna. Hroki og siðleysi hafa einkennt framgöngu þeirra. Og það sem langsamlega sárast er, er að málflutningur þeirra einkennist enn af hroka. Málefnalega eru þeir staurblankir.

Nokkuð augljóst er að Samfylking og Vinstri Grænir munu fá megnið af valdinu. Spurning vaknar um hvort þeir eru menn til fá svo mikið vald. Í sögu mannsins eru þess ótal dæmi að vald spillir fólki. Körlum og konum. Dæmi á „farsældar Fróni“ sanna og það.

Upp í hugann kemur eftirminnileg setning úr bókinni „Grát ástkæra fósturmold“, (Cry, The Beloved Country), eftir hvíta suður afríska rithöfundinn Alan Paton. Undirtitill bókarinnar er: Saga um huggun í hörmum. Í bókinni segir: „…og óskaðu ekki eftir valdi yfir nokkrum manni, því að ég á vin, sem kenndi mér, að valdið spillir mönnum.“ Bls. 263.

Fregnir dagsins herma að margir ætli að skila auðu. Engin ætti að láta það eftir sér. Miklu nær væri að þeir óánægðu léðu Borgaraflokknum atkvæði sitt. Það væri ekki úr vegi að fá nokkrar nýjar raddir i þingið, raddir sem ætla má að verði tiltölulega óháðar fyrstu misserin.

5 svör við “Málefnalega staurblankur flokkur”

  1. Nei, ég var að benda á prentvilluna í neðstu málsgreininni, þar sem stendur Borgaraflokkurinn. Hann er góðu heilli ekki í framboði nú. 😉

  2. Arnibjörn: Ég óttast að við sjáum öðruvísi VG eftir kosningar, en þennan sem kynnir sig fyrir þær.

    Binni: Ég á við Sjálfstæðisflokkinn. Auðvitað er hann ekki stærsti flokkurinn lengur. Fyrirgefðu villuna.

  3. Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn. Það er vel orðað. Málefnalega staurblankur flokkur. Eina sem þeir hafa framm að færa er hræðsluáróður gegn núverandi stjórnar flokkunum, þá sérstaklega V.G Og segja að allt fari til fjandans ef þeir fái að stjórna. En ég hef meiri trú á að V.G stuðli einna best að því að jafna kjörin því eftir langa stjórnarsetu sjálftökuflokkana er það einna brýnast. Kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.