Á áttatíu dögum kringum jörðina. Það var heilmikið ferðalag og margt skondið sem dreif á dagana. Það má líka reikna með að margt skondið drífi á daga þjóðarinnar þessa áttatíu daga sem Jóhönnu stjórnin fer með völdin. Mér fannst Ögmundur heilbrigðisráðherra nokkuð kaldur kall þegar hann sló innlagningargjaldið af í einu höggi.
Kannski hefði verið hyggilegra að lækka gjaldið fyrst um einhvern hluta. Sjá svo til hvar fengjust peningar til að mæta því. Fyndust þeir, mætti stíga skrefið til fulls. En litlir kallar á borð við mig hugsa að sjálfsögu smátt þótt þeir búi ekki á Seltjarnarnesi. Þjóðin hefur sára reynslu af þeim sem hugsa of stórt. Um þessar mundir er ísinn harla þunnur og mikill vandi að fikra sig áfram.
Í matarboði um helgina hjá ósköp hversdagslegu fólki voru meðal annarra nokkur ungmenni. Um tíma vildu þau ræða stjórnmál. Ungmenni hafa allt á hreinu eins og vitað er. Eitt þeirra sagðist dá orðháka á Alþingi. Þeir segðu hlutina með krafti, – næstum því með kjafti og klóm. „Það er flott,“ sagði ungmennið. Spurt var á móti: Er þá meira virði hvernig hlutir eru sagðir heldur en það sem sagt er? Það varð fátt um svör.
Svo er Jóhanna byrjuð. Við fylgjumst eftirvæntingarfull með.