Grimmd örlaganna

„En það hlýtur að teljast grimmd örlaganna að sá maður sem þurrkaði upp gamlar skuldir landsins í fjármálaráðherratíð sinni, Geir Haarde, skuli nú sitja uppi sem blóraböggull vegna ósvífni fjárglæframanna og alls kyns braskara.“ Þannig tekur Matthías Johannessen til orða í opnu grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins um helgina.

Það er hægt að taka undir þessi orð Matthíasar. En fleiri örlög eru grimm. Það verður ekki horft framhjá því að á sama tíma stækkaði verulega sá hópur fólks sem lifði við og undir fátæktarmörkum og var lítið sem ekkert gert til að bæta hag þess. Geir, ásamt meðstjórnendum sínum og ráðgjöfum fullyrtu öll árin að fátækt væri lítil sem engin á landinu og alls ekki meiri en í svokölluðum viðmiðunarlöndum. Og töldu það hið besta mál.

Í annarri grein í Lesbók er haft eftir Jóni Kalmani Stefánssyni: „[…] Hér stjórna ráðherrar, ekki Alþingi. Og við, hinn almenni maður, höfum ekkert með ákvarðanir þeirra að segja. Þeir ákveða að styðja innrás í Írak, þeir ákveða að gefa útvöldum aðilum auðlindir hafsins, og síðan bankana, þeir ákveða að leggja niður spítala, og gæla við að einkavæða þá. […]

Víst eru örlögin grimm. Tugþúsundir Íslendinga þjást og líða um þessar mundir og þeim fjölgar hratt sem sökkva niður fyrir fátæktarmörk og sjá hvergi glætu í sortanum. Og hver ætli sé ástæðan fyrir því? Gæti orðið ranglæti í stjórnun svarað því?

Ný ríkisstjórn hefur nú tekið við völdum. Vafalítið vill hún vel. En hvers verður hún megnug? Það er ekki nóg að fá vald. Það þarf að kunna að fara með það. Það er með mikilli eftirvæntingu sem horft er til nýju stjórnarinnar, hvort henni tekst að vinna svo úr viðfangsefnunum að einhverskonar réttlæti verði sjáanlegt.

Um það kjósum við í apríl.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.