Jóhanna og eyðslusemin

Þegar Geir Haarde lýsir Jóhönnu Sigurðardóttur hnýtir hann því gjarnan aftan við, annars jákvæð ummæli um hana, að hún sé eyðslusöm. Væntanlega byggir hann þá skoðun á þeirri stefnu Jóhönnu að vilja gera betur við verst settu þjóðfélagsþegnana en tíðkast hefur hingað til.

Eldri borgarar, öryrkjar og þeir sem búið hafa við og undir fátæktarmörkum hafa ekki notið mikils skilnings af valdhöfum margra síðustu ára þrátt fyrir tröllvaxna peningaveltu. Ýmsum öðrum þjóðfélagshópum hefur fremur verið skammtað ríkulega af sjóðum þjóðarinnar. Hópum sem höfðu haft allsnægtir fyrir. Misrétti hefur það verið kallað.

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hefur m.a. fjallað talsvert um siðfræði í stjórnmálum. Ekki er að sjá að ráðmenn síðustu ára hafi gert mikið með slíka speki. Hafa þeir fremur horft til þess hluta þjóðarinnar sem unnir gullkálfum fremur en hugsuninni um – frelsi, jafnrétti og bræðralag.

Atkvæði mitt í kosningum er einungis eitt atkvæði. Og ég skil að það vegur ekki þungt. En um þessar mundir hlusta ég grannt eftir orðum stjórnmálamanna, ákveðinn í að leita eftir þeim sem líklegastir eru til þess að vilja bæta svo gæði samfélagsins að lífsgæði þeirra lakast settu verði viðunandi?

Endurtek hér orð Vilhjálms Árnasonar í sjónvarpi fyrir skömmu: „Að kerfið sem stjórnað er með komi þeim verst settu betur en önnur skipan. Að mæla ágæti samfélags út frá stöðu þeirra veikast settu.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.